Hugmyndafræðin og fyrstu skref

Á síðustu árum hefur orðið mikil breyting á ástundun íslenskra fræða. Ein af þeim athyglisverðustu er sú að fræðimenn hafa í auknum mæli tekið til við að rannsaka persónulegar heimildir fólks frá fyrri öldum, þær sem á ensku eru nefndar egodocuments. Heimildir þessar hafa ekki átt upp á pallborðið hjá þorra fræðimanna vegna hins huglæga eðlis þeirra; mörgum hefur fundist erfitt að nota heimildir sem byggðu eingöngu á vitnisburð eins manns, vitnisburði sem einkenndist af tilfinningum og rökhugsun einstaklingsins. Með öðrum orðum margir sagnfræðingar hafa lengst af öldinni 20. hræðst hin óljósu skil sem eru á milli skáldskapar og veruleika í þessum verkum. Þau hafa dregið úr áhuga margra þeirra á heimildinni. Sagnfræðingar hafa oft talið sig vanhæfa til að sannprófa frásagnir ólíkra tegunda sjálfsbókmennta eða einkaskjala, án tillits til þess hvaða flokks þær tilheyra, þar sem oft er enginn annar til frásagnar um efnið. Af þessum ástæðum nýttu hlutfallslega sárafáir sagnfræðingar sér sjálfsbókmenntir á skipulegan hátt í rannsóknum sínum lengst framan af 20. öldinni.

Á undanförnum árum hefur orðið nokkur breyting á viðhorfum fræðimanna til efnis af þessu tagi, þar sem mönnum hefur fundist sérstakur fengur í að fá að heyra álit fólks, oft einstaklinga sem lítið hafa látið að sér kveða á opinberum vettvangi, þar sem það fjallar um tilfinningar sínar og viðhorf til manna og málefna í rituðu máli. Heimildir þær sem geyma slíkan vitnisburð eru einkum dagbækur, sendibréf, sjálfsævisögur og önnur persónuleg skrif. Þessar heimildir hefur sívaxandi hópur fræðimanna notað í rannsóknum sínum og hefur því fengið tækifæri til að kynnast kostum þeirra og göllum þeirra. Reynsla af fyrrnefndum heimildum – einkaskjölum – gerði það að verkum að hópur fræðimanna hafði löngun til að birta eitthvað af þessu efni á prenti.

Við sem höfum unnið með sjálfsbókmenntir eða einskaskjöl höfum til dæmis kynnst þeim í Handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, en þar vann Kári Bjarnason handritavörður sem á eftir að koma hér við sögu. Sameiginlegur áhugi margra fræðimanna og Kára á handritum og þeim fjársjóði heimilda sem Handritasafnið hefur að geyma varð til þess að við fórum í alvöru að ræða um að gera tilraun til að efna til ritraðar sem birti þessar heimildir.

Sigurður Gylfi Magnússon, sem þá var sjálfstætt starfandi fræðimaður og nýkomin heim frá Bandaríkjunum eftir að hafa varið sína doktorsritgerð í sagnfræði þar í landi, og Kári sáu fyrir sér að með því að hefja útgáfu á ritröð sem einbeitti sér að handritum úr Handritasafni Landsbókasafns myndum þeir eiga þess kost að vekja athygli annarra fræðimanna á persónulegum heimildum. Samhliða þessum vangaveltum hafði Sigurður Gylfi unnið að því að nýta og kynna aðferðir einsögunnar (e. microhistory) í rannsóknum sínum, en þær aðferðir má telja heppilegar til að beita á þessar tegundir heimilda. Með þessari samsetningu aðferða og heimilda var ljóst að ný sóknarfæri voru að opnast í faginu í lok 20. aldar. Sú staðreynd hleypti kappi í hugmyndina um stofnsetningu nýrrar ritraðar og þeir hófu undirbúning undir hana fyrir alvöru eftir að Sigurður Gylfi hafði lokið við bókina Menntun, ást og sorg. Einsögurannsókn á íslensku sveitasamfélagi 19. og 20. aldar sem Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út árið 1997. Í því verki hafði hann unnið mikið með einkaskjöl og sannfærðist þá endanlega um ágæti þeirra. Kári bjó hins vegar yfir mikilli þekkingu á Handritasafninu og var áfjáður í að miðla henni til þeirra sem sóttust eftir að kynna sér efnið.

Í annan stað vakti fyrir ritstjórum að gera tilraun til að brúa bilið milli fræðanna og áhugamanna um sögu þjóðarinnar. Það var sorglega lítið af efni í boði sem tengdi almenning við söguna, efni sem er aðgengilegt og áhugavert til aflestrar. Þeim fannst einmitt þessar heimildir vera þesslegar að þær myndu henta vel til slíkra nota, að áhugasamir lesendur myndu hafa hug á að skyggjast inn í heim fólks á eins beinan hátt og kostur væri. Dagbækur, bréf og sjálfsævisögur væru líkleg til að vinna hug og hjörtu lesenda og þá væri tilætluðum árangri náð. Þeim varð einfaldlega ljóst að þetta efni ætti hljómgrunn og þekking okkar á þessum heimildum gerði það að verkum að við ættum kost á að búa til heimildabækur sem myndu vekja athygli og áhuga á fólks á sögunni og möguleikum hennar til sköpunar og frjórar hugmynda.

Þá má nefna að ritstjóranna langaði einnig til að búa til vettvang fyrir háskólanemendur sem sýnt höfðu mikinn áhuga á heimildunum og úrvinnslu þeirra. Með ritröðinni rættist þessi draumur um vettvang fyrir unga og reyndari fræðimenn þar sem þeim gæfist kostur á að leggja heimildir sínar á borð áhugamanna um sagnfræði.