Haustið 2024 var ákveðið á ritstjórnarfundi á opna á aðgang að bókunum og byrja á þeim elstu. Markmiðið er að birta eina bók á mánuði.
5. Burt – og meir en bæjarleið. (Smellið á titilinn til að opna á bókina.)
Dagbækur og persónuleg skrif Vesturheimsfara á síðari hluta 19. aldar. Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon tóku saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 5 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2001). 377 bls.
Sagnfræðingarnir Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon tóku bókina saman og rita báðir ítarlega inngangskafla að henni. Í inngangi sínum fjallar Sigurður Gylfi um stöðu og þróun innflytjendarannsókna hér heima og erlendis og ræðir möguleika framhaldsrannsókna á því fræðasviði. Davíð ræðir í inngangi sínum uppbyggingu bókarinnar og valið á heimildamönnum, gildi persónulegra heimilda fyrir sagnfræðirannsóknir auk þess að setja sýnishornin í samhengi við þjóðfélagsþróun á síðari hluta nítjándu aldar.
Í raun má segja að Austur-Íslendingar og Vestur-Íslendingar séu viðfangsefni þessarar bókar. Vesturheimsferðirnar á síðari hluta nítjándu aldar höfðu í för með sér einhver mestu umskipti sem átt hafa sér stað í Íslandssögunni en þá tóku sig upp um 20 þúsund einstaklingar og fluttu í aðra heimsálfu.
Í bókinni Burt – og meir en bæjarleið birtast valdir kaflar úr dagbókum nokkurra Íslendinga sem fluttu vestur um haf til Kanada og Bandaríkjanna á síðasta fjórðungi nítjándu aldar auk bréfa og sjálfsævisögukafla Vesturheimsfara. Í dagbækurnar skráðu þeir hluta af lífi sínu heima í gamla landinu, búferlaflutningana og reynslu innflytjandans í nýjum heimi. Í dagbókunum blandast saman skráningar á hversdagslegum athöfnum og stórviðburðum í lífi einstaklinganna.
4. Orð af eldi (Smellið á titilinn til að opna á bókina.)
Bréfasamband Ólafar Sigurðardóttur á Hlöðum og Þorsteins Erlingssonar á árunum 1883–1914. Erna Sverrisdóttir tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 4 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2000). 212 bls.
Hvað vitum við um skáldin?
Allt sem vita þarf, kann einhver að segja. Við þekkjum ljóðin þeirra og sögu.
Fullyrt er að eftir lestur þessarar bókar viljum við vita meira!
Þorsteinn Erlingsson og Ólöf Sigurðardóttir á Hlöðum bundust óvenju sterkum tilfinningaböndum sem þau treystu í bréfum sínum. Á þeim vettvangi, sem var persónulegur og geymdi táknmál tilfinninga þeirra, létu þau í ljósi skoðanir sem erfitt gat verið að birta opinberlega. Ást þeirra var þó ekki blind. Hún var mörkuð af þeirri staðreynd að þau unnu mökum sínum og fjölskyldum.
Bók þessi geymir bréfaskipti Þorsteins og Ólafar á árunum 1883-1914; bréf Þorsteins hafa verið kunn en nú eru bréf Ólafar í fyrsta skipti aðgengileg. Þau sýna hvernig fólk tjáði sín dýpstu leyndarmál innan hins knappa forms bréfanna. Fyrir skáldin tvö var þetta eina færa leið tímans þar sem ár og fjöll skildu þau ævinlega að.
3. Elskulega móðir mín, systir, bróðir, faðir og sonur. (Smellið á titilinn til að opna á bókina.)
Fjölskyldubréf frá 19. öld. Sigrún Sigurðardóttir tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 3 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999). 366 bls.
Bókin Elskulega móðir mín er heimildarrit sem varpar ljósi á bréfaskipti reykvískrar alþýðufjölskyldu á síðari hluta 19. aldar. Þetta var fjölskylda þeirra Jóns Jónssonar Borgfirðings og Önnu Guðrúnar Eiríksdóttur, en þau hjón héldu uppi um margra ára skeið samfelldum bréfaskiptum við börn sína sem mörg sigldu til Kaupmannahafnar til að afla sér menntunar eða lækninga. Aðaláherslan er á börn þeirra hjóna en þau skrifuðu hvert öðru þegar lönd og höf skildu að og er bréfasafn fjölskyldunnar gríðarlegt að vöxtum. Texti þeirra veitir ótrúlega nákvæma innsýn í líf ungs fólks á fyrir tíð. Hlutskipti barnanna varð ólíkt; nokkur komust til mikilla metorða en önnur náðu illa að fóta sig á hálli braut lífsins. Þekktust þeirra systkina urðu þau Guðrún Borgfjörð sem vann hjá fjölskyldunni nær alla tíð en varð þjóðkunn þegar sjálfsævisaga hennar kom út um miðja 20. öldina, Klemens Jónsson landritari og síðar ráðherra og Finnur Jónsson prófessor í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Bókin fjallar um sögu þessa fólks, foreldra og systkina og glímu þeirra við gleði og sorg. Bókin er hugsuð sem skemmtilesning fyrir áhugafólk um sögu og menningu fyrri aldar sem og fræðimenn sem hugsanlega sjá sér hag í að nýta sér heimildir á borð við þessar í rannsóknum sínum.
2.Kraftbirtingarhljómur guðdómsins. (Smellið á titilinn til að opna á bókina.)
Dagbók, sjálfsævisaga, bréf og kvæði Magnúsar Hj. Magnússonar, skáldsins á Þröm. Sigurður Gylfi Magnússon tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 2 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1998). 423 bls.
Hér er í fyrsta sinn birt sýnishorn úr persónulegum gögnum Magnúsar Hj. Magnússonar – dagbók hans, sjálfsævisögu og bréfum. Magnús var fyrirmynd Ólafs Kárasonar Ljósvíkings í Heimsljósi Halldórs Kiljans Laxness. Halldór nýtti sér þessar heimildir ótæpilega við samningu Heimsljóss og afar fróðlegt er að kynnast frumheimildum að bók hans. Magnús sjálfur var einstakur maður sem átti ávallt á brattann að sækja. Æviferill hans gefur ótrúlega innsýn í hugsunarhátt fólks í kringum aldamótin síðustu. Magnús glímdi við óréttlæti heimsins á öllum vígstöðvum og varðist því á sinn sérstaka hátt; með því að segja sögu sína jafnóðum í dagbókinni í þeirri von að síðari tíma menn gerðu sér betur grein fyrir stöðu lítilmagnans. Kraftbirtingarhljómur Guðdómsins má því með réttu kalla varnaræðu Magnúsar.
Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur ritar ítarlegan inngang að bókinni sem hann nefnir „Magnús og mýtan“, en þar segir hann sögu Magnúsar í grófum dráttum, ræðir gildi þessara tilteknu heimildar fyrir sagnfræðirannsóknir og hugleiðir stöðu sagnfræðinnar, meðal annars í ljósi póstmódernískra áhrifa.
1. Bræður af Ströndum. (Smellið á titilinn til að opna á bókina.
Dagbækur, ástarbréf, almenn bréf, sjálfsævisaga, minnisbækur og samtíningur frá 19. öld. Sigurður Gylfi Magnússon tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1997). 323 bls.
Bókin er heimildarrit sem hefur að geyma sýnishorn úr textum þeirra bræðra Halldórs og Níelsar Jónssona auk þess sem birt eru bréf eftir þriðja bróðurinn, Ísleif og einnig bréf ekkju Halldórs, Elínu Samúelsdóttur. Eftir þá Halldór og Níels liggja miklar skrifaðar heimildir af ýmsum toga en báðir voru þeir fátækir bændasynir á síðari hluta nítjándu aldar sem síðar hófust upp í stétt sjálfstæðra bænda og ólu allan sinn aldur í Strandasýslu. Texti þeirra veitir ótrúlega nákvæma innsýn í líf fólks á fyrir tíð. Mesta athygli vekja dagbækur þeirra beggja, ástarbréf Níelsar og bréf það sem Elín Samúelsdóttir ritaði Níelsi árið 1914, þar sem hún skýrir honum frá láti sonar síns Samúels Halldórssonar og lýsir neyð heimilisins í kjölfar þess að barnaveikin hafði stungið sér þar niður. Sjálfsævisaga Halldórs er meistaralega skrifuð og margs konar samtíningur hans vekur sömuleiðis eftirtekt.
Bók þessi er hugsuð sem skemmtilesning fyrir áhugafólk um sögu og menningu fyrri aldar sem og fræðimenn sem hugsanlega sjá sér hag í að nýta sér heimildir á borð við þessar í rannsóknum sínum. Sigurður Gylfi Magnússon sem tók þessa bók saman og ritar inngang að henni nýtti sér sömu heimildir í annarri bók sem kom út á miðju þessu ári hjá Háskólaútgáfunni og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, er ber heitið Menntun, ást og sorg. Þar er leitast við að nýta heimildirnar við greiningu á hugarheimi nítjándu aldar manna og þá sérstakleg hugmyndum ungs alþýðufólks sem stóð á mótum gamla tímans og þess nýja. Í þeirri bók sem nú er að koma út, Bræður af Ströndum fá heimildir bræðranna að njóta sín án þess að við þeim sé hróflað, en það gefur lesandanum skemmtilega nálægð við textann og líf þess fólks sem þar kemur við sögu.