Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar – ritröð sem gefin er út á vegum Háskólaútgáfunnar í samvinnu við ritstjórana Braga Þorgrím Ólafsson, Davíð Ólafsson,  Sólveigu Ólafsdóttur og Sigurð Gylfa Magnússon og Miðstöð einsögurannsókna við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hönnun bókakápa ritraðarinnar eru allar eftir Öldu Lóu Leifsdóttur listamann. Sverri Sveinsson prentari hefur brotið um allar bækurnar og átt stóran þátt í að hanna innihald þeirra og framsetningu hverrar bókar.

Markmið ritraðarinnar er að koma á framfæri áhugaverðum sjálfsbókmenntum (e. egodocuments) sem ekki hafa komið fyrir sjónir almennings eða fræðimanna. Hugmyndin er að vinna bækurnar þannig að þar sé að finna fræðilega kynningu á efninu sem tekið er fyrir hverju sinni sem og sýnishorn úr tilteknum handritum einstaklinga frá fyrri öldum. Heimildirnar sem eru birtar eiga það sameiginlegt að sýna lífshætti og -kjör alþýðumanna með einum eða öðrum hætti.

Frá fyrsta degi hafa Sýnisbækurnar verið þróaðar með ákveðna hugmyndafræði í huga, nefnilega að gefa í fyrsta lagi lesendum kost á að komast í kynni við ótrúlega ríkulegan handritaarf frá síðari öldum sem varðveittur er í söfnum víða um land. Í öðru lagi hefur jafnan vakið fyrir ritstjórum að brúa bilið milli fræðanna og áhugamanna um sögu þjóðarinnar. Ritstjórarnir voru þeirrar skoðunar að dagbækur, bréf og sjálfsævisögur væru líklegar heimildir til að vinna hug og hjörtu lesenda og þá væri tilætluðum árangri náð. Í þriðja lagi hefur það verið frá upphafi marmið ritstjóra að búa til vettvang fyrir háskólanemendur sem sýnt höfðu mikinn áhuga á heimildunum og úrvinnslu þeirra. Sá draumur hefur sannarlega ræst því margir höfundar ritraðarinnar eru núverandi og  fyrrverandi nemendur okkar. Í fjórða og síðasta lagi vildum við freista þess að gefa vísindamönnum í hug- og félagsvísindum kost á að kynnast innihald einkaskjala sem hafa aðallega verið birt í ritröðinni. Það hefur verið trú okkar að þessar heimildir sem oft eru flóknar og erfiðar í úrvinnslu geti opnað nýja sín á liðna tíð.