Útgefnar bækur

Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar – ritröð sem gefin er út á vegum Háskólaútgáfunnar með fulltingi Miðstövar einsögurannsókna við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Ritstjórar eru: Bragi Þorgrímur Ólafsson,  Davíð Ólafsson, Már Jónsson, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon.

 

 

 

Útgefin verk eru:

33.  Jón Torfason og Már Jónsson tóku saman.


Þessi frægu glæpamál. Morðin á Sjöundá og Illugastöðum. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 33. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2024.

Átta fullorðnir týndu lífinu og tíu börn innan við fermingu misstu foreldra sína í tveimur þekktustu morðmálum Íslandssögunnar sem átttu sér stað á Sjöundá á Rauðasandi árið 1802 og Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1828. Málin hafa orðið rithöfundum að yrkisefni og nokkuð er til af fræðilegri umfjöllun en sjálfir dómarnir hafa ekki verið gefnir út fyrr en á þessari bók. Nær atburðunum verður ekki komist.

 

32.  Aðalsteinn Ingólfsson


Listasaga leikmanns. Listannáll 1941-1968 eftir Kristján Sigurðsson póstfulltrúa í Reykjavík. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 32. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2023.

Kristján Sigurðsson (1892‒1984) var bóndasonur ofan úr Borgarfirði. Hann settist að í Reykjavík snemma á þriðja áratug síðustu aldar. Mestan hluta ævi sinnar vann hann hjá Pósti og síma, síðast sem póstfulltrúi, en var frá upphafi ötull þátttakandi í menningarlífi bæjarins. Á árunum hélt Kristján ítarlegar dagbækur – nokkurs konar listaannál – um myndlistarlífið í Reykjavík. Á því tímabili sá hann allar sýningar íslenskra og erlendra listamanna, skráði skoðanir sínar á þessum sýningum, viðbrögð gagnrýnenda og annarra álitsgjafa við myndlistarsýningum og ekki síst athugasemdir sínar við skoðanir annarra á myndlistinni. Bókin veitir afar óvenjulegt sjónarhorn á myndlistarlífa á Íslandi um miðja 20. Öld. Sjá einnig kveðskap Kristjáns um myndlistarlífið í Reykjavík.

 

 

 

31.  Halldóra Kristinssdóttir og Jón Torfason tóku saman.


Meinlætahnútar og mýkjandi plástrar. Lækningaiðkanir Jóns Bergsted í Húnavatnssýslu 1828-1838. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 31. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2023.

Jón Bergsted (1795-1863) var sjálfmenntaður læknir sem hélt dagbók yfir störf sín í Húnavatnssýslu á árunum 1828-1838. Í dagbókkin er að finna lýsingar á sjúkdómum sem hrjáður yfir 400 nafngreinda sjúklinga í sýslunni og þeim úrræðum sem Jón beitti.

 

 

 

30.  Davíð Ólafsson, og Kristján Mímisson ritstjórar


Heimsins hnoss. Söfn efnismenningar, menningararfur og merking.  Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 30. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2023. 261 bls.

Í bókinni birtast greinar eftir hóp fræðimanna sem fjalla um eigur fólks á Íslandi á 18. og 19. öld. Til grundvallar liggja ólíkar gerðir munasafna, annars vegar gripir varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands og hins vegar dánarbúsuppskriftir rúmlega 30 þúsund íslendinga, varðveittar á Þjóðskjalasafni Íslands. Þessi tvö gripasöfn eru til skoðunar í verkinu auk þess sem fjallað er um eðli safna almennt og þekkingarsköpun og -miðlun þeirra með margvíslegu móti. Hvað átti fólk af ólíkum stigum samfélagsins og á mismunandi aldri? Hvaðan komu þeir hlutir sem fólk átti og hvað varð um þá þegar það lést? Hvernig endurspegla þessi tvö söfn efnislegar eigur fólks á fyrri tímum? Rötuðu hverdaglegir gripir sem eru uppistaðan í dánarbúsuppskriftunum inn á Þjóðminjasafn Íslands? Á hvaða upplýsingum byggir hinn svonefndi „menningararfur“ sem hampaði við hátíðleg tækifæri?

 

29. Guðrún Valgerður Stefánsdóttir


Bíbí í Berlín. Sjálfsævisaga Bjargeyjar Kristjánsdóttur. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 29. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2022. 368 bls.

Bíbí hét fullu nafni Bjargey Kristjánsdóttir (1927–1999) en hún var kennd við kotbæ foreldra sinna, Berlín sem var rétt utan við Hofsós. Hún þótti bráðgert barn en veiktist á fyrsta ári og var síðar stimpluð sem ,,fáviti“ af fjölskyldu sinni og sveitungum. Rétt fyrir þrítugt féll móðir hennar frá og hún var þá flutt á elliheimilið á Blöndósi þar sem hún dvaldi í tæpa tvo áratugi. Um síðir flutti hún í þorpið og lifði þar í skjóli vina. Þetta er hennar saga – sjálfsævisaga – en fáir vissu að hún væri læs eða skrifandi.

 

28. Anna Heiða Baldursdóttir, Atli Þór Kristinsson, Daníel G. Daníelsson, Marín Árnadóttir, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon


Þættir af sérkennilegu fólki: Menning fátæktar. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 28. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2021. 325 bls.

Bókin fjallar um fólk sem var á einhvern hátt hornreka í samfélögum fyrri tíðar og hvernig það bæði náði að þrauka Þorrann og Góuna og um leið að hafa áhrif á samtíð sína með margvíslegum hætti. Höfundar bókarinnar leita fanga í jafn fjölbreyttum heimildum og þjóðlegum fróðleik (þættir af sérkennilegu fólki), í blöðum og tímaritum frá 19. og 20. öld, í Alþingisbókum Íslands (Acta comitiorum generalium Islandiæ) í ritröð sem Sögufélag gaf út í 17 bindum 1912–1914 og 1991 og safnað saman öllum þeim textum sem tengjast: 1) mannlýsingum; 2) einstaklingum með líkamlegar eða andlegar skerðingar í sem víðustum skilningi; 3) úrskurðum og meðferð yfirvalda á ómögum og fátæklingum. Farið er með sama hætti yfir Fornbréfasafnið, Annála frá 1400–1800 og dánarbúsuppskriftir og allt þetta efni greint með fjölbreyttum hætti. Hugmyndin er að gera tilraun til að skilja það sem við nefnum „menningu fátæktar“, hvernig Íslendingar gerðu ráð fyrir að fátækt þrifist á Íslandi í einni eða annarri mynd.

 

 

27.  Davíð Ólafsson


Frá degi til dags: Dagbækur, almanök og veðurdagbækur 1720–1920. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 27. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2021. 325 bls.

Þessi bók fjallar um eðli og umfang dagbókaritunar á Íslandi um tveggja alda skeið, frá 1720 til 1920. Hún byggist á safni dagbóka sem varðveitt er í Handritasafni Landsbókasafns Íslands. Hópur dagbókaritara – alls á þriðja hundrað einstaklinga – er margbreytilegur og dagbækurnar sjálfar eru mjög fjölbreyttar að formi og innihaldi. Þær spanna frá örfáum vikum til margra áratuga samfelldra skráninga og færslurnar eru frá örfáum orðum um feðurfar til langra tilfinningaþrunginna hugleiðinga.

 

 

26. Hjörleifur Stefánsson


Hvílíkt torf – tóm steypa! Úr torfhúsum í steypuhús í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 26. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2021. 383 bls. og 73 ljósmyndir og teikningar.

Bókin Hvílíkt torf – tóm steypa! rekur bygginasögu sveitanna í máli og myndum og birtir svör sýslunefndarmanna landsins við spurningum Sigurðar Péturssonar verkfræðings, en hann safnaði þessu byggingarsögulega efni saman. Þessi heimild hefur legið ókönnuð í skjalasöfnum frá árinu 1900. Um er að ræða mikið magn heimilda sem verða að flokkast með því allra merkilegasta á sviði byggingarsögu tímabilsins. Hjörleifur Stefánsson arkitekt sem hefur um árabil fengist við byggingarsögurannsóknir vann verkið og rekur í formála bókarinnar þá byltingu í húsagerð sem átti sér stað á þessum tíma. Óhætt er að segja að bókin opni aðgang að heimildum sem varpa skýrara ljósi en áður á torfhúsahefðina á lokaskeiði hennar.

 

 

25. Ingibjörg Sigurðardóttir


Sjálf í sviðsljósi: Ingibjörg Steinsdóttir leikkona (1903–1965) og sjálfsmyndasafn hennar. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 25. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2020. 288 bls. og 48 myndir.

Ingibjörg Steinsdóttir er ekki hér. Hún er ekki lengur til sem lifandi vera en minjar um ævi hennar liggja hins vegar eins og reki í margs konar „textum“. Sögur af Ingibjörgu hafa verið skrifaðar og endurskrifaðar, sagðar og endursagðar, lesnar og túlkaðar á margvíslegan hátt. Dótturdóttir og hafna Ingibjargar hitti ömmu sína aldrei í lifandi lífi en ólst upp við litríkar sögur af henni og stöðugan samanburð, bæði undir jákvæðum og neikvæðum formerkjum. Í þessari bók freistar höfundur þess að komast að því hver Ingibjörg Steinsdóttir var en jafnframt að gefa henni rödd í sögunni.

 

24. Finnur Jónasson, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon,

Híbýli fátæktar. Húsnæði og veraldleg gæði fátæks fólks á 19. og fram á 20. öld. Sýnibók íslenskrar alþýðumenningar 24 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2019). 254 bls.

Hvað gerir hús að húsaskjóli og hvað þarf til lífsbjargar? Í þessari bók verða heimili, efnisleg gæði og daglegt líf fátæks fólks á 19. öld og á fyrri hluta 20. aldar til skoðunnar. Fátækt hafði afgerandi áhrif á alþýðu landsins en hver voru hin samfélagslegu úrræði? Í bókinni er leitast við að skilgreina hvað fátækt merkir og beint sjónum að bjargráðum einstaklinga og samfélags til að bregðast við skorti og misskiptingu veraldlegra gæða með því markmiði að leggja grundvöll að hugtakinu menningu fátæktar. Bókin skiptist í fjóra sjálfstæða hluta sem eiga það þó sameiginlegt að fjalla um húsnæði og aðbúnað fátæks fólks á Íslandi á 19. og 20. öld.

Höfundarnir þrír fjalla um fátækt á liðinni tíð frá ýmsum hliðum með sérstakri áherslu á híbýli. Í fjórða hlutanum sem ber nafnið „Birtingarmyndir fátæktar“ hefur að geyma einstakt myndasafn Sigurðar Guttormssonar bankastarfsmanns í Vestmannaeyjum sem teknar voru á árunum 1930–1945. Safnið hefur að geyma alls 230 myndir á híbýlum fátækra um allt land. Sigurður gaf Alþýðusambandi Íslands myndasafnið til að eggja það áfram í húsnæðismálum fátækra og er það varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands. Einnig er endurbirt viðtal við Sigurð um myndirnar úr Tímanum frá árinu 1962. Forseti Alþýðusambands Íslands, Drífa Snædal, ritar stutt ávarp af þessu tilefni sem birtist fremst í bókinni.

 

23. Jón Jónsson,

Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögum og samfélagi. Sýnibók íslenskrar alþýðumenningar 23 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2018). 254 bls.

Í bókinni er fjallað um förumennsku í íslenska bændasamfélaginu, allt frá miðöldum til loka 19. aldar. Gefið er sögulegt yfirlit yfir þróunina og fjallað um fjölda förumanna, samsetningu hópsins og viðhorfin til þeirra á ólíkum tímum. Auk þess er athyglinni beint að lögum og reglum sem giltu um flakk og jafnframt óskráðum siðaboðum sem einkenndu samfélagið og samhjálparkerfi þess. Fjallað er um fjölmarga einstaka flakkara og leitast við að láta sögu þeirra og sögur um þá varpa ljósi á ákveðin hugtök sem tengjast samfélaginu, eins og vald og valdbeitingu, félagslegt taumhald, vinnusemi og viðhorf til vinnunnar, gestrisni og samhjálp. Hörmulegt atlæti Stuttu-Siggu í æsku, skringileg skemmtiatriði Halldórs Hómers, rifin klæði Jóhanns bera og uppreisnarseggurinn Sölvi Helgason koma öll við sögu ásamt fleirum. Jafnframt er fjallað um þjóðsögur og sagnir um förufólk, sagnamyndun um þennan hóp sem var gríðarlega mikil, þjóðtrú tengda förufólki og samspil sagnahefðarinnar við ímynd hópsins og viðhorf til hans.

Í bókinni er einnig fjallað um helstu heimildaflokka sem nýttir eru við rannsóknina, enda eru þeir óvenjulega fjölbreyttir og notkun þeirra krefst umtalsverðrar heimildarýni. Á meðal þessara heimilda eru svör við spurninga­listum á Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins, viðtöl á Segulbandasafni Stofnunar Árna Magnússonar, þjóðsögur, sagnaþættir og ævisögur. Fræðileg umræða um heimildirnar og um förumennskuna sjálfa er einnig fyrirferðamikil í bókinni og hugað að fyrri rannsóknum á förufólkinu hér á landi.

 

 

22. Grænlandsfarinn.

Dagbækur Vigfúsar Sigurðssonar og þrír leiðangrar hans. Vigfús Geirdal tók saman. Sýnibók íslenskrar alþýðumenningar 22 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2018). 316 bls.

Vigfús Sigurðsson Grænlandsfari (1875–1950) varð nafnkunnur af þremur sögulegum Grænlandsleiðöngrum. Tvívegis var hann fylgdarmaður landkönnuða sem notuðu íslenska hesta á ferðum sínum um Grænlandsjökul. Í leiðangrinum 1912–1913 var farið þvert yfir Grænland og veturseta höfð á jökli. Komust leiðangursmenn naumlega lífs af úr þeirri svaðilför. Hinum síðari, 1930–1931, stýrði Alfreð Wegner, höfundur landrekikenningarinnar.

Sjálfur stóð Vigfús fyrir Gottuleiðangrinum 1929 sem farinn var til að fanga á Grænlandi vísi að íslenskum sauðnautastofni. Dóttursonur Grænlandsfarans og nafni, Vigfús Geirdal sagnfræðingur, bjó til útgáfu dagbækur afa síns úr Grænlandsferðunum þremur og önnur gögn þeim tengd.

 

 

21. Sakir útkljáðar.

Sáttabók Miðfjarðarsáttaumdæmis 1799–1865. Vilhelm Vilhelmsson tók saman. Sýnibók íslenskrar alþýðumenningar 21 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2018). 218 bls.

Vinnuhjú strjúka úr vist sinni vegna sultar og illrar meðferðar. Hjón skilja sökum ósamlyndis og framhjáhalds. Nágrannar kíta um jarðamörk og hvalreka. Jarðeigandi kallar leiguliða sinn ambátt og hlýtur svívirðingar fyrir. Þetta er meðal þess efnis sem finna má í Sáttabók Miðfjarðarsáttaumdæmis 1799-1865, sem hér er sótt um styrk til að gefa út. Um er að ræða orðrétta heimildaútgáfu með fræðilegum inngangskafla sem setur efnið í sögulegt samhengi. Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur hefur tekið efnið saman og ritað inngang.

Sáttanefndir voru settar á fót í danska konungsríkinu og þar með á Íslandi í lok 18. aldar og þær störfuðu langt fram á 20. öld. Hlutverk þeirra var að miðla málum og leita sátta í minniháttar misklíðarefnum á milli manna og létta þar með undir með störfum héraðsdómara. Þær voru töluverð réttarbót fyrir alþýðufólk sem þurfti síður að leggja í kostnaðarsaman og tímafrekan málarekstur til að fá úrlausn sinna mála.

Í bókum sáttanefnda er að finna margvíslegar upplýsingar um líf og hagi alþýðufólks á Íslandi á 19. öld. Misklíðarefnin sem leidd voru til sætta voru fjölbreytileg en fela í sér merkilegan vitnisburð um daglegt líf íslensks alþýðufólks á fyrri tíð. Úr þeim má lesa margt um réttarvitund og gildismat, félagsgerð og menningarmun auk þess sem bækur sáttanefnda veita innsýn í amstur hversdagsins. Þar birtast leiðir nærsamfélagsins til þess að leysa úr ágreiningsmálum og halda friðinn án þess að leita á náðir dómskerfisins, en jafnframt samband undirsáta við yfirboðara sína og aðferðir þeirra við að sækja rétt sinn eða andæfa valdboði og yfirráðum.

Bækur sáttanefnda eru þó lítt þekktur heimildaflokkur meðal fræðimanna sem og almennings og hafa lítið verið notaðar við rannsóknir á sögu lands og þjóðar og störf sáttanefnda hér á landi hafa ekki verið rannsökuð. Útgáfan mun því verða til gagns í rannsóknum fræðimanna sem vinna með íslenska sögu og menningararf auk þess sem hún mun höfða til allra áhugamanna um sögu lands og þjóðar. Þar að auki mun bókin veita fræðimönnum á sviði lögfræði mikilvæga innsýn í réttarfar og réttarvitund fyrr á tíð og þær leiðir sem farnar voru til þess að útkljá misklíðarefni með farsælum hætti. Það á ekki síst erindi nú á dögum, þegar málaferli verða sífellt flóknari og umsvifameiri, svo að sífellt háværari raddir heyrast meðal lögfræðinga um innleiðingu sáttamiðlunar í réttarfari landsins. Síðast en ekki síst veitir hún skemmtilega og fræðandi innsýn í amstur hversdagsins í íslenskri sveit á öndverðri 19. öld og höfðar þannig til alls almennings.

 

 

20. Guðrún Ingólfsdóttir,

Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar. Bókmenning kvenna frá miðöldum til 1730. Sýnibók íslenskrar alþýðumenningar 20 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2017). 352 bls.

Bókin fjallar um sambúð íslenskra kvenna og bóka frá miðöldum fram til 1730. Gefið er yfirlit yfir rannsóknir á bókmenningu kvenna í Evrópu, þ.e. bæði læsi þeirra og skriftarfærni. Einnig er kafað ofan í prentaðar heimildir, sagnfræðilegar og skáldaðar, og þaðan veidd dæmi um læsi og skriftariðju íslenskra kvenna. Lesandi og skrifandi konur í þýddum og frumsömdum skálduðum ritum höfðu án efa áhrif á sjálfsmynd íslenskra kvenna sem hlýddu á eða lásu slíkar frásagnir.

Meginviðfangsefni bókarinnar er spurningin um það hvernig íslenskrar konur nýttu lestrar- og skriftarfærni í samfélagi sem á yfirborðinu virtist ekki leggja kapp á að þær byggju yfir henni. Lítið sem ekkert er varðveitt af prentbókum úr eigu kvenna frá rannsóknartímanum en allmörg handrit. Skoðað er hvernig handrit úr eigu kvenna nýttust í höndum þeirra en auk þess víða leitað fanga í prentuðum heimildum og handritum um skriftarfærni kvenna. Síðasti kafli bókarinnar er nákvæm rannsókn á handriti úr eigu konu til að komast að því hvað það segir um heimsmynd hennar, sjálfsmynd og menningarlegan bakgrunn.

 

 

19. Jón Ólafur Ísberg og Sigurður Gylfi Magnússon,

Fátækt og fúlga. Þurfalingarnir 1902. Sýnibók íslenskrar alþýðumenningar 19 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2016). 429 bls.

Fátækt á Íslandi hefur verið íslenskum ráðamönnum hugleikið viðfangsefni allt frá landnámi. Umræðan fékk aukið vægi á dögum upplýsingarinnar og hefur löngum verið áhersluatriði í rökræðum manna á milli síðan. Árið 1902 var tekin saman að undirlagi nefndar Alþingis yfirgripsmikil skrá yfir alla þá einstaklinga á Íslandi sem þegið höfðu af sveit það árið og töldust þannig til þurfalinga. Í þessari bók er fjallað um starf þingnefndarinnar, skráin birt í heild sinni og hver urðu viðbrögð þingheims við tillögum hennar. Hver voru örlög fátæks fólks á þessum tíma og hvernig tókst það á við fordóma samtíðar sinnar? Höfundar bókarinnar glíma við álíka spurningar þegar þeir fjalla um fátækt á Íslandi frá ýmsum hliðum.

 

 

18. Sterbúsins fémunir framtöldust þessir.

Eftirlátnar eigur 96 Íslendinga sem létust á tímabilinu 1722–1820. Már Jónsson tók saman. Sýnibók íslenskrar alþýðumenningar 18 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2015). 416 bls.

Holdsveikur niðursetningur, vinnukona sem gengur í sjóinn, ung hjón sem verða undir skriðufalli, bjargálna mæðgur, feðgar sem drukkna, annars óþekktur vinnumaður, miðaldra tómthúsmaður, bláfátæk húsfreyja, efnaður bóndi, morðingi og fórnalömb hans, örbjarga piparsveinn, fyrrverandi hreppstjórar, prestdóttir á stórbýli, rektorsfrú og systurdóttir langsfógeta. Til eru skrár yfir eftirlátnar fjármuni mörg þúsund Íslendinga af öllum stigum frá fyrri tóið og birtast nærri hundrað í þessari bók. Í inngangi eru forsendur fyrri tilurð og varðveislu heimilanna útskýrðar.

 

 

17 Árni H. Kristjánsson og Sigurður Gylfi Magnússon,

Bóndinn, spendýrin og fleiri undur alheimsins. Alfræðiverk fyrir alþýðu sem Jón Bjarnason frá Þórormstungu í Vatnsdal vann á árunum 1845–1852. Sýnibók íslenskrar alþýðumenningar 17 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2015). 212 bls.

Í bókinni eru tveir ítarlegir greiningarkaflar höfunda bókarinnar. Viðfangsefni þeirra er níu binda alfræðiverk Jóns bónda Bjarnasonar frá Þórormstungu í Vatnsdal sem hann vann á árunum 1845–1852. Þá er í bókinni að finna efni frá Jóni bónda sjálfum, frumtextar úr handriti hans. Birtur er formáli verksins þar sem Jón bóndi gerir grein fyrir aðföngum sínum og aðferðum. Einnig er að finna í bókinni langan kafla um mannkynið auk annars efnis sem allt er afar athyglisverðir í menningarsögulegu ljós.

Í köflunum höfunda bókarinnar er fjallað um verk Jóns frá mörgum hliðum; ævi hans er rakin eftir bestu fáanlegu heimildum, aðstæður greindar, tungutak opinberað og reynt að svara spurningunni: Hvernig verður svona maður til og hvað er það sem gerir honum kleift að þrífast í fátækt 19. aldarinnar á Íslandi? Einnig er hugað að samspili texta og teikninga í verkinu, en það prýða rúmlega 500 teikningar, ýmist af mönnum, dýrum, steinum eða plöntum. Sú greining er sett í samhengi þess sem höfundar nefna „skapandi rými“ 19. aldar, það andrúmsloft sem gerði mönnum eins og Jóni bónda kleift að njóta sín. Í bókinni er að finna yfir 50 myndir og mikill meirihluti þeirra eru teikningar Jóns bónda. Verkið er ritrýnt.

 

16. Guðný Hallgrímsdóttir,

Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu. Sýnisbækur íslenskra alþýðuheimilda 16 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2013). 173 bls.

Sagan sem sögð er í þessari bók byggist meðal annars á sjálfsævisögubroti sem varðveist hefur og ber titilinn Ævisaga Guðrúnar Ketilsdóttur. Guðrún fæddist árið 1759 og er saga hennar líklega elsta varðveitta sjálfsævisaga íslenskrar alþýðukonu – vinnukonu frá 18. öld. Í sögunni fjallar Guðrún á opinskáan hátt um líf sitt í Eyjafirði og erfitt hjónaband með ótrúum eiginmanni. Frásögnin er full af einlægum og litskrúðugum lýsingum á mönnum og málefnum. Í bókinni er fjallað um líf þessar merkilegu alþýðukonu og hvernig hún náði, þrátt fyrir afar þrönga stéttarstöðu sína, að hasla sér völl í erfiðu árferði móðuharðindanna.

 

 

15. Dagbók Elku.

Alþýðumenning í þéttbýli á árunum 1915–1923 í frásögn Elku Björnsdóttur verkakonu. Hilma Gunnarsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon tóku saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 15 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2012). 330 bls.

Það eru sagnfræðingarnir Hilma Gunnarsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon sem hafa haft veg og vanda af verkinu. Þau rita ítarlega inngangskafla að dagbókum Elku en Háskólaútgáfan gefur verkið út.

Elka Björnsdóttir var verkakona í Reykjavík í upphafi 20. aldar. Hún var trúuð, þátttakandi í verkalýðsmálum, áhugasöm um menntir, menningu og framfarir en um leið íhaldssöm og fastheldin á hefðir. Hún var höfðingjadjörf og jafnréttissinnuð sveitakona sem fylgdist grant með því sem var að gerast í þjóðmálunum og tileinkaði sér margt af því sem nútíminn hafði upp á að bjóða. Bókin veitir einstaka innsýn inn í lífsbaráttu, kjör og aðbúnað fátæks fólks í Reykjavík um það leyti sem Ísland var að verða fullvalda ríki. Vinnuharka, húsnæðisekla, vöru skömmtun, dýrtíð, alvarleg veikindi og óhagstætt tíðarfar settu svip á hina daglegu lífsbaráttu en einnig má greina í texta Elku sterka samhjálp, kröftuga stéttarbarátta og sókn í menntun og menningu.

Elka skrifaði um marga merkisatburði í íslenskri þjóðarsögu í dagbækur sínar, til dæmis um spænsku veikina, fullveldistökuna, Kötlugosið, brunann í miðbænum og Drengsmálið. Einnig segir Elka frá kuldanum og fylgifiskum hans frostaveturinn mikla  1918 auk að fjalla ítarlega um hversdaglegt amstur fátæks fólks á tímabilinu. Mögnuð dagbókarskrif hennar frá árunum 1915–1923 eru birt í heild sinni í þessari bók.

 

14. Anna Hinriksdóttir,

Ástin á tímum ömmu og afa: Bréf og dagbækur Bjarna Jónassonar – kennara, sveitarhöfðingja og samvinnumanns í Húnaþingi á öndverðri 20. öld. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 14 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2010). 292 bls.

„Anna! Viltu verða konan mín? Heldurðu að þú getir elskað mig? Jeg bið ekki einungis um hönd þína, jeg bið um hjarta þitt. Eigi jeg ekki enn hug þinn, vonast jeg eftir að geta unnið hann, því ástinni er ekkert ómáttugt.“ Bjarni Jónasson (1891-1984) biðlaði fyrst bréfleiðis til Önnu Sigurjónsdóttur (1900-1993) 4. febrúar 1920 og lét ekki hugfallast þótt hann fengi afsvar í fyrstu. Bjarni var kennari, bóndi, fræðimaður og sveitarhöfðingi í Bólstaðarhlíðarhreppi og Anna var húsmóðir á bújörð þeirra hjóna. Í bókinni Ástin á tímum ömmu og afa er ástarsaga þeirra rakin í gegnum fjölda bréfa Bjarna til Önnu og dagbækur hans frá árunum 1908-1926. Bréf Bjarna og dagbækur segja ekki aðeins sögu þeirra hjóna heldur draga einnig upp lifandi mynd af lífi alþýðufólks til sveita og íslensku samfélagi þess tíma.

Ástin á tímum ömmu og afa var lokaverkefni höfundar, Önnu Hinriksdóttur, til M.A.-prófs í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Anna hefur unnið við miðlun af ýmsum toga – ritstörf, þýðingar, dagskrárgerð í sjónvarpi, vefmiðlun og hönnun sögusýninga – síðan hún lauk B.A.-námi í kvikmynda- og fjölmiðlafræði 1991.

 

 

13. Eftir skyldu míns embættis.

Prestastefnudómar Þórðar biskups Þorlákssonar árin 1675-1697. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 13. Már Jónsson og Gunnar Örn Hannesson tóku saman (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008). 377 bls.

Þórður Þorláksson er þekktastur fyrir bók sína um Ísland árið 1666, hljóðfæraleik, garðræktartilraunir og kaup á kryddi erlendis frá. Ekki var hann atkvæðamikill sem biskup en vandaði verk sín og naut virðingar meðal annarra ráðmanna. Hér birtast dómar sem Þórður lét ganga á prestastefnum á Þingvöllum og í héraði. Þeir sýna kirkjustjórn hans og afskipti af siðferði landsmanna, en ekki síst hagi og hegðun presta, sem margir hverjir voru skrautlegir náungar. Bókinni fylgir yfirgripsmikil skrá yfir nöfn og atriðisorð.

 

12. Í nafni guðdómsins heilagrar þrenningar.

Prestastefnudómar Jóns biskups Vídalíns árin 1698-1720. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 12. Már Jónsson og Skúli Sigurður Ólafsson tóku saman (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2006). 335 bls.

Jón biskup Vídalín er þekktastur fyrir postillu sína sem kom út árin 1718-1720 og hefur alla tíð notið vinsælda vegna innblásturs og ómældrar andagiftar. Hér birtast dómar sem Jón lét ganga á prestastefnum á Þingvöllum. Þeir veita innsýn í kirkjustjórn hans og varpa ljósi á hagi og hegðun presta, en ekki síður á siðferðisástand íslensku þjóðarinnar. Einnig kemur fram harður og viðvarandi ágreiningur kirkjunnar manna og veraldlegs valds um réttargæslu og landsstjórn. Bókinni fylgir yfirgripsmikil skrá yfir nöfn og atriðisorð.

 

11. Sigurður Gylfi Magnússon,

Sjálfssögur. Minni, minningar og saga. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 11. Gestaritstjóri Soffía Auður Birgisdóttir (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2005). 429 bls.

Aðstandendur Sýnisbókar íslenskrar alþýðumenningar senda nú frá sér elleftu bókina í ritröðinni og nefnist hún Sjálfssögur. Minni minningar og saga og er höfundur hennar Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur. Bókin inniheldur sögur um tilurð og gerð sjálfsins, auk þess sem þar er að finna greiningu á sögunum í sögunum – sjálfsbókmenntum. Sigurður Gylfi kannar hvernig höfundar varðveita minningar sínar, hvernig minnið virkar hjá mannfólkinu – konum og körlum – og hvaða áhrif takmarkanir þess hafa á möguleika samtímans til að fjalla um fortíðina. Hvernig er minningum fólks stjórnað og hverjir hafa hag af því móta sýn þess á liðna tíð?

Í viðauka að bókinni er að finna ítarlega hugtakaskrá þar sem rúmlega 220 hugtök sem koma fyrir rannsókninni eru skilgreind. Bókin er sjálfsstætt framhald af fyrri bók Sigurðar Gylfa, Fortíðardraumar (2004).

 

10. Guðs dýrð og sálnanna velferð.

Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1674. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 10 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2005). 513 bls.

Brynjólfur biskup Sveinsson er einn af höfðingjum íslenskrar sögu. Þekktastur er hann fyrir harmþrungin örlög dóttur sinnar Ragnheiðar. Farsælli var hann sem embættismaður og hér birtast dómar sem hann lét ganga á prestastefnum á Þingvöllum og víðar um landið allt frá því hann tók við embætti árið 1639 þangað til hann lét af störfum sumarið 1674. Efni dómanna er mjög fjölbreytt. Tekið er á siðferðisbrestum þjóðarinnar og ekki síður prestastéttarinnar, en jafnframt sinnt andlegri velferð landsmanna og réttindi þeirra gagnvart konungi varin. Útgáfunni fylgir yfirgripsmikil skrá yfir nöfn og atriðisorð.

 

9. Sigurður Gylfi Magnússon,

Fortíðardraumar. Sjálfsbókmenntir á Íslandi. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 9. Gestaritstjóri Guðmundur Hálfdanarson (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004). 427 bls.

Fortíðardraumar fjalla með lýsandi dæmum um sjálfsbókmenntir á tuttugustu öld – sjálfsævisögur, endurminningarit, samtalsbækur, skáldævisögur, ævisögur – og helstu einkenni þeirra. Samhengi íslenskra sjálfsbókmennta er útskýrt og hvernig fræðimenn hafa nýtt slík ritverk. Að auki kemur fram með hvaða hætti sjálfið er mótað í dagbókum, bréfum, þjóðlegum fróðleik, viðtölum, minningagreinum, opinberum heimildum og með skynjun heimilda. Nýlegar birtingarmyndir sjálfsins eru rökræddar á gagnrýnin hátt í spegli menningarlegrar orðræðu samtímans.

Í bókarlok er að finna yfirgripsmiklar skrár þeirra Moniku Magnúsdóttur (yfir allar útgefnar sjálfsbókmenntir á 20. öld) og Kára Bjarnason (yfir sjálfsbókmenntir í handritum).

 

8. Jónsbók.

Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 8 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004). 383 bls.

Á alþingi sumarið 1281 var samþykkt ný lögbók fyrir Íslendinga sem unnin var að frumkvæði Magnúsar Hákonarsonar konungs. Bókin var snemma nefnd Jónsbók og segir til um flesta þætti íslensks samfélags. Lýst er þingsköpum, tekið á manndrápum, þjófnaði og öðrum afbrotum, tilgreindar erfðir karla sem kvenna og fjallað um samskipti leiguliða og jarðeigenda, búfjárbeit og verðlag, ásamt mörgu fleiru. Jónsbók var notuð í heild fram á 18. öld og enn er tíundi hluti hennar í gildi. Um miðja 14. öld var bókin endurskoðuð með hliðsjón af nýrri konungsúrskurðum. Í þessari bók birtist sá texti hennar sem eftir það var notaður við dóma og er algengastur í handritum, en birtist jafnframt í prentaðri útgáfu verksins árið 1578.

 

7. Landsins útvöldu synir.

Ritgerðir skólapilta Lærða skólans í íslenskum stíl 1846-1904. Bragi Þorgrímur Ólafsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 7 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004). 365 bls.

Hér er að finna úrval ritgerða í íslenskum stíl eftir skólapilta Lærða skólans á árunum 1846-1904. Ritgerðarefnin eru afar fjölbreytt og endurspegla tíðarandann á skemmtilegan hátt. Piltarnir lýsa sínum heimaslóðum og hversdagslegum viðburðum en taka jafnframt afstöðu til ýmissa þjóðfélagsmála. Fjallað er um framtíð þjóðarinnar, Vesturferðir, hjátrú og vantrú, lífið í Reykjavík, tísku og glæsileika,  dyggði og lesti, svo fátt eitt sé nefnt. Meðal höfunda eru skólapiltar sem síðar urðu þjóðþekktir menn. Má þar nefna Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, Matthías Jochumsson og Gest Pálsson, sem ásamt öðrum skólapiltum voru álitnir „landsins útvöldu synir“.

 

6. Til merkis mitt nafn.

Dómabækur Markúsar Bergssonar sýslumanns Ísafjarðarsýslu 1711-1729. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 6 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003). 410 bls.

Dómabækur sýslumanna eru undraverð heimild um mannlíf og hugarfar á fyrri öldum. Þar birtast ástir og ógæfa, átök og illmælgi, óhlýðni og undirferli, en jafnframt sést hvernig yfirvöld beittu hörðum refsingum í því skyni að halda uppi aga. Hér má lesa dómabækur Markúsar Bergssonar sýslumanns á öndverðri 18. öld og fylgjast með ótrúlegu umstangi og víðfeðmu verksviði hans í stóru og ógreiðfæru umdæmi. Úgáfan er unnin í samvinnu við Sögufélag Ísfirðinga.

 

5. Burt – og meir en bæjarleið.

Dagbækur og persónuleg skrif Vesturheimsfara á síðari hluta 19. aldar. Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon tóku saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 5 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2001). 377 bls.

Sagnfræðingarnir Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon tóku bókina saman og rita báðir ítarlega inngangskafla að henni. Í inngangi sínum fjallar Sigurður Gylfi um stöðu og þróun innflytjendarannsókna hér heima og erlendis og ræðir möguleika framhaldsrannsókna á því fræðasviði. Davíð ræðir í inngangi sínum uppbyggingu bókarinnar og valið á heimildamönnum, gildi persónulegra heimilda fyrir sagnfræðirannsóknir auk þess að setja sýnishornin í samhengi við þjóðfélagsþróun á síðari hluta nítjándu aldar.

Í raun má segja að Austur-Íslendingar og Vestur-Íslendingar séu viðfangsefni þessarar bókar. Vesturheimsferðirnar á síðari hluta nítjándu aldar höfðu í för með sér einhver mestu umskipti sem átt hafa sér stað í Íslandssögunni en þá tóku sig upp um 20  þúsund einstaklingar og fluttu í aðra  heimsálfu.

Í bókinni Burt – og meir en bæjarleið birtast valdir kaflar úr dagbókum nokkurra Íslendinga sem fluttu vestur um haf til Kanada og Bandaríkjanna á síðasta fjórðungi nítjándu aldar auk bréfa og sjálfsævisögukafla Vesturheimsfara. Í dagbækurnar skráðu þeir hluta af lífi sínu heima í gamla landinu, búferlaflutningana og reynslu innflytjandans í nýjum heimi. Í dagbókunum blandast saman skráningar á hversdagslegum athöfnum og stórviðburðum í lífi einstaklinganna.

 

 

4. Orð af eldi. Bréfasamband Ólafar Sigurðardóttur á Hlöðum og Þorsteins Erlingssonar á árunum 1883–1914. Erna Sverrisdóttir tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 4 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2000). 212 bls.

Hvað vitum við um skáldin?

Allt sem vita þarf, kann einhver að segja. Við þekkjum ljóðin þeirra og sögu.

Fullyrt er að eftir lestur þessarar bókar viljum við vita meira!

Þorsteinn Erlingsson og Ólöf Sigurðardóttir á Hlöðum bundust óvenju sterkum tilfinningaböndum sem þau treystu í bréfum sínum. Á þeim vettvangi, sem var persónulegur og geymdi táknmál tilfinninga þeirra, létu þau í ljósi skoðanir sem erfitt gat verið að birta opinberlega. Ást þeirra var þó ekki blind. Hún var mörkuð af þeirri staðreynd að þau unnu mökum sínum og fjölskyldum.

Bók þessi geymir bréfaskipti Þorsteins og Ólafar á árunum 1883-1914; bréf Þorsteins hafa verið kunn en nú eru bréf Ólafar í fyrsta skipti aðgengileg. Þau sýna hvernig fólk tjáði sín dýpstu leyndarmál innan hins knappa forms bréfanna. Fyrir skáldin tvö var þetta eina færa leið tímans þar sem ár og fjöll skildu þau ævinlega að.

 

3. Elskulega móðir mín, systir, bróðir, faðir og sonur.

Fjölskyldubréf frá 19. öld. Sigrún Sigurðardóttir tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 3 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999). 366 bls.

Bókin Elskulega móðir mín er heimildarrit sem varpar ljósi á bréfaskipti reykvískrar alþýðufjölskyldu á síðari hluta 19. aldar. Þetta var fjölskylda þeirra Jóns Jónssonar Borgfirðings og Önnu Guðrúnar Eiríksdóttur, en þau hjón héldu uppi um margra ára skeið samfelldum bréfaskiptum við börn sína sem mörg sigldu til Kaupmannahafnar til að afla sér menntunar eða lækninga. Aðaláherslan er á börn þeirra hjóna en þau skrifuðu hvert öðru þegar lönd og höf skildu að og er bréfasafn fjölskyldunnar gríðarlegt að vöxtum. Texti þeirra veitir ótrúlega nákvæma innsýn í líf ungs fólks á fyrir tíð. Hlutskipti barnanna varð ólíkt; nokkur komust til mikilla metorða en önnur náðu illa að fóta sig á hálli braut lífsins. Þekktust þeirra systkina urðu þau Guðrún Borgfjörð sem vann hjá fjölskyldunni nær alla tíð en varð þjóðkunn þegar sjálfsævisaga hennar kom út um miðja 20. öldina, Klemens Jónsson landritari og síðar ráðherra og Finnur Jónsson prófessor í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Bókin fjallar um sögu þessa fólks, foreldra og systkina og glímu þeirra við gleði og sorg. Bókin er hugsuð sem skemmtilesning fyrir áhugafólk um sögu og menningu fyrri aldar sem og fræðimenn sem hugsanlega sjá sér hag í að nýta sér heimildir á borð við þessar í rannsóknum sínum.

 

2. Kraftbirtingarhljómur Guðdómsins. Dagbók, sjálfsævisaga, bréf og kvæði Magnúsar Hj. Magnússonar, skáldsins á Þröm. Sigurður Gylfi Magnússon tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 2 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1998). 423 bls.

Hér er í fyrsta sinn birt sýnishorn úr persónulegum gögnum Magnúsar Hj. Magnússonar – dagbók hans, sjálfsævisögu og bréfum. Magnús var fyrirmynd Ólafs Kárasonar Ljósvíkings í Heimsljósi Halldórs Kiljans Laxness. Halldór nýtti sér þessar heimildir ótæpilega við samningu Heimsljóss og afar fróðlegt er að kynnast frumheimildum að bók hans. Magnús sjálfur var einstakur maður sem átti ávallt á brattann að sækja. Æviferill hans gefur ótrúlega innsýn í hugsunarhátt fólks í kringum aldamótin síðustu. Magnús glímdi við óréttlæti heimsins á öllum vígstöðvum og varðist því á sinn sérstaka hátt; með því að segja sögu sína jafnóðum í dagbókinni í þeirri von að síðari tíma menn gerðu sér betur grein fyrir stöðu lítilmagnans. Kraftbirtingarhljómur Guðdómsins má því með réttu kalla varnaræðu Magnúsar.

Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur ritar ítarlegan inngang að bókinni sem hann nefnir „Magnús og mýtan“, en þar segir hann sögu Magnúsar í grófum dráttum, ræðir gildi þessara tilteknu heimildar fyrir sagnfræðirannsóknir og hugleiðir stöðu sagnfræðinnar, meðal annars í ljósi póstmódernískra áhrifa.

 

1. Bræður af Ströndum.

Dagbækur, ástarbréf, almenn bréf, sjálfsævisaga, minnisbækur og samtíningur frá 19. öld. Sigurður Gylfi Magnússon tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1997). 323 bls.

Bókin Bræður af Ströndum er heimildarrit sem hefur að geyma sýnishorn úr textum þeirra bræðra Halldórs og Níelsar Jónssona auk þess sem birt eru bréf eftir þriðja bróðurinn, Ísleif og einnig bréf ekkju Halldórs, Elínu Samúelsdóttur. Eftir þá Halldór og Níels liggja miklar skrifaðar heimildir af ýmsum toga en báðir voru þeir fátækir bændasynir á síðari hluta nítjándu aldar sem síðar hófust upp í stétt sjálfstæðra bænda og ólu allan sinn aldur í Strandasýslu. Texti þeirra veitir ótrúlega nákvæma innsýn í líf fólks á fyrir tíð. Mesta athygli vekja dagbækur þeirra beggja, ástarbréf Níelsar og bréf það sem Elín Samúelsdóttir ritaði Níelsi árið 1914, þar sem hún skýrir honum frá láti sonar síns Samúels Halldórssonar og lýsir neyð heimilisins í kjölfar þess að barnaveikin hafði stungið sér þar niður. Sjálfsævisaga Halldórs er meistaralega skrifuð og margs konar samtíningur hans vekur sömuleiðis eftirtekt.

Bók þessi er hugsuð sem skemmtilesning fyrir áhugafólk um sögu og menningu fyrri aldar sem og fræðimenn sem hugsanlega sjá sér hag í að nýta sér heimildir á borð við þessar í rannsóknum sínum. Sigurður Gylfi Magnússon sem tók þessa bók saman og ritar inngang að henni nýtti sér sömu heimildir í annarri bók sem kom út á miðju þessu ári hjá Háskólaútgáfunni og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, er ber heitið Menntun, ást og sorg. Þar er leitast við að nýta heimildirnar við greiningu á hugarheimi nítjándu aldar manna og þá sérstakleg hugmyndum ungs alþýðufólks sem stóð á mótum gamla tímans og þess nýja. Í þeirri bók sem nú er að koma út, Bræður af Ströndum fá heimildir bræðranna að njóta sín án þess að við þeim sé hróflað, en það gefur lesandanum skemmtilega nálægð við textann og líf þess fólks sem þar kemur við sögu.