Rétt eftir að bók Sigurðar Gylfa, Menntun, ást og sorg. Einsögurannsókn á sveitasamfélagi 19. og 20. aldar. Sagnfræðirannsóknir 13 (Reykajavík: Háskólaútgáfan og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1997) kom út snemma árs 1997 fór hann að velta fyrir sér þeim möguleika að gefa út sýnishorn af þeim heimildum sem hann hafði unnið mest með í tengslum við rannóknina. Þarna var um að ræða dagbækur bræðranna Halldórs og Níelsar Jónssona frá Tindi í Strandasýslu. Heimildirnar þessar eru varðveittar í Handritasafni Landsbókasafns og eru miklar af vöxtum. Halldór hélt til dæmis dagbók í 24 ár og Níels í 40 ár. Báðir söfnuðu þeir bræður að sér ýmislegu skriflegu efni þannig að eftir þeirra daga varðveittist mikið magn einkaskjala. Sigurður Gylfi vissi að ef ekki yrði drifið í að koma þessum gögnum út á meðan hann hefði þetta yfirlit yfir heimildasjóð þeirra bræðra þá yrði það aldrei gert. Með þetta í huga tók hann sig til og setti saman fyrstu bókina sem fékk nafnið Bræður af Ströndum. Þar naut hann mjög liðveislu Kára Bjarnasonar sem studdi þessa tilraun með ráðum og dáð. Hann las til dæmis yfir alla bókina og bar vélritaða textann saman við handritið. Þá var hann óþreyttur að hvetja Sigurð Gylfa til dáða og lagði fast að honum að koma verkinu út.
Þegar bókin var í vinnslu sótti Sigurður Gylfi um útgáfustyrk til Menningarsjóðs og ræddi einnig við forsvarsmenn Sögufélags um að þeir gæfu vilyrði sitt fyrir útgáfu bókarinnar. Styrkinn frá Menningarsjóði fékk hann upp á 350.000 kr. en af samstarfi við Sögufélagið varð ekki, þrátt fyrir að Sigurður Gylfi væri tilbúinn til að gefa félaginu handritið að bókinni og hugmyndina sjálfa. Þegar þarna var komið sögu var hann einnig búinn að fá styrk frá menningarsjóði SPRON upp á 200.000 kr. Bókinni var því borgið og með það í farteskinu gekk Sigurður Gylfi á fund Jörundar Guðmundssonar útgáfustjóra Háskólaútgáfunnar og lagði til að fyrirtækið gæfi bókina út. Hann tók því vel og svo samdist um að bókin kæmi út í októbermánuði 1997. Það gekk eftir og óhætt er að segja að bókin hafi strax vakið mikla athygli. Með þessu hófst samfelld útgáfusaga ritraðarinnar hjá Háskólaútgáfunni sem enn stendur yfir. Fyrstu fjögur árin naut Sýnisbókarröðin ríflegs styrkjar frá Landsbanka Íslands sem gerði ritstjórum kleift að koma fótunum undir ritröðina. Þar skipti sköpum áhugi þáverandi bankastjóra Landsbankans Sverris Hermannssonar á íslenskri menningu og studdi hann útgáfu hugmyndir okkar með ráðum og dáðum. Þátttaka Háskólaútgáfunnar í þessu útgáfuævintýri hefur þó riðið baggamuninn og óhætt er að þakka Jörundi Guðmundssyni fyrir þá framsýni sem hann sýndi þegar ákveðið var að Háskólaútgáfan kæmi að útgáfu ritraðarinnar. Ekkert annað útgáfufyrirtæki hefði treyst sér til að takast á við þessa útgáfuhugmynd.
Fyrstu fimm bækurnar voru helgaðar persónulegum vitnisburði alþýðufólks en árið 2002 fjölgaði ritstjórum úr tvo í fjóra með þátttöku þeirra dr. Más Jónssonar prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands og dr. Davíðs Ólafssonar sagnfræðings í menningarfræðideild Háskóla Íslands. Skömmu síðar hvarf þó Kári Bjarnason úr ritstjórninni og til annarra starfa. Þá var einnig ákveðið að breyta áherslum og leita eftir efni frá fyrri hluta nýaldar, það er tímabilinu 1500–1800 og stefna að því að víkka út alþýðumenningarhugtakið í verkefnavali ritraðarinnar. Strax eftir að þeir Már og Davíð bættust í hóp ritstjóra gaf Már út verk sem markaði tímamót þar sem gefið var út opinber texti sem þó fjallaði um einstaklinga og tengsl þeirra við stofnanir samfélagsins. Þetta voru dómabækur Magnúsar Bergssonar sýslumanns Ísafjarðarsýslu 1711–1729 og var verkið unnið í góðri samvinnu við Sögufélag Ísfirðinga. Þar var einnig um nýjung að ræða og hefur ritstjórn Sýnisbókanna tekið þá stefnu að stuðla að slíku samstarfi við áhuga- og fagfólk um menningu síðari alda. Síðar kom svo út bók í samantekt Más Jónssonar úr opinbera geiranum, það er sjálf Jónsbók – lagabók frá þrettándu öld sem var fyrst prentuð 1578. Fleiri fylgdu svo í kjölfarið en Már hefur verið óvenju afkastamikill útgefandi handrita því hann hefur ekki aðeins látið sér nægja Sýnisbókarröðina sem vettvang fyrir þá vinnu heldur hefur hann komið verkum sínum út víðar. Þar hefur hann meðal annars unnið úr hinni mögnuðu heimild uppskriftabókum sýslumanna en dánabúsuppskriftirnar sem telja vel yfir 20 þúsund frá 18. og 19. öld hefur hann gefið út markvisst, meðal annars þær sem eru tengd ákveðnum svæðum og þá í tengslum við heimamenn. En Már hefur alls ekki einskorðað sig við þessa tegund heimilda; áhugmál hans eru afar fjölbreytt og sjást þau merki víða í útgáfum hans.
Með bókinni Fortíðardraumar sem Sigurður Gylfi samdi var enn stigið skref til breytinga og það ekki lítið. Ritstjórar ákváðu að hefja nýja línu innan Sýnisbókarraðarinnar sem einbeitti sér að útgáfu höfundarverka fræðimanna. Ætla verður að mest verði gefið út af verkum í þessari höfundarlínu sem tengjast úrvinnslu úr handritaarfinum eða rannsókum á einkaskjölum þar sem einstaklingurinn og hugmyndaheimur hans er jafnan í öndvegi. Ritstjórar telja þetta vera eðlilega breytingu sem hafi verið nokkuð fyrirséð. Í heimildaútáfu reynist nefnilega oft erfitt að skilja á milli höfundaverka og útgáfu heimildatexta. Mörgum verkanna hafa fylgt ítarlegir inngangskaflar sem hafa á stundum talið um það bil þriðjung af lesefni bókanna (samanber Kraftbirtingarhljómur Guðdómsins). Að auki sáu ritstjórarnir fyrir sér að einhverjar bækur yrðu sambland af höfundarverki og löngum textabrotum inn í sjálfir umfjöllun höfundar.
Segja má að frá og með fimmtándu bók sem birti dagbækur Elku Björnsdóttur verkakonu í Reykjavík hafi stefna ritraðarinnar verið tekin á að skilgreina fátækt í landinu, ef til vill eitthvað sem nefna má menningu fátæktar. Hver bókin af annarri hefur tekist á við þetta verkefni með ólíkum hætti.
„Fátækt á Íslandi hefur verið íslenskum ráðamönnum og menntamönnum hugleikið viðfangsefni allt frá landnámi. Umræðan fékk aukið vægi á dögum upplýsingarinnar og varð áhersluatriði í rökræðum manna á milli alla 19. öldina,“ segir Sigurður Gylfi Magnússon, í viðtali við Tímarit Háskóla Íslands, um rannsóknarverkefni sem hann vann að á þeim tíma. Rannsóknarefnið er hinar ýmsu birtingarmyndir fátæktar á 19. öld og fram á þá 20., allt frá tilfinngalífi og menntun til efnislegra gæða og almennra haga fátæks fólks. Og áfram heldur Sigurður Gylfi á sama vettvangi: „Snemma árs 2016 kom út bókin Fátækt og fúlga. Þurfalingarnir 1902 sem ég og Jón Ólafur Ísberg sagnfræðingur skrifuðum og gefið var út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar hjá Háskólaútgáfunni. Bókin var fyrsta skrefið í umfangsmiklum rannsóknum á fyrirbærinu fátækt í sögulegu ljósi“. Fram kom í viðtalinu að árið 1902 hafi verið tekin saman, að undirlagi Alþingis, yfirgripsmikil skrá yfir alla þá einstaklinga á Íslandi sem þegið höfðu af sveit það árið og töldust þannig til þurfalinga. „Í þessari skrá er fátækt skoðuð fyrir og eftir aldamótin 1900. Hver voru örlög fátæks fólks á þessum tíma og hvernig tókst það á við fordóma samtíðar sinnar? Við höfundar bókarinnar glímdum við álíka spurningar þegar við fjölluðum um fátækt á Íslandi frá ýmsum hliðum,“ segir hann ennfremur.
Í næsta áfanga rannsóknarinnar er sjónum sérstaklega beint að húsnæðismálum fátæks fólks og að því koma einnig sagnfræðingarnir og doktorsnemendurnir við HÍ Sólveig Ólafsdóttir og Finnur Jónasson. Í þessu nýja verkefni sem kom út árið 2019 var kafað í þennan þýðingarmikla þátt í hversdagslífi alþýðumanna sem húsnæði og híbýli eru. Áherslan var lögð á 19. öldina og fyrri hluta þeirrar 20. Viðfangsefnið er flókið þar sem byggt sé bæði á opinberum heimildum, einkaskjölum og ljósmyndum og áframhald verður á útgáfum í ritröðinni sem snertir á þessu þýðingarmikla viðfangsefni.
En hvaða þýðingu hafa rannsóknir sem þessar fyrir okkur í nútímanum? „Við öðlumst betri skilning á því hvernig nútímamaðurinn varð til, hvað mótaði hann og hvernig hver og einn tókst á við þau vandamál sem blöstu við frá degi til dags,“ svarar Sigurður Gylfi og bætir við: „Því miður hefur samfélagið heldur ekki náð að hrista af sér hlekki fátæktar og saga þessa málflokks getur vonandi vísað veginn inn í framtíðina.“
Viðfangsefni ritraðarinnar frá öndverður hefur vissilega verið saga alþýðunnar í landinu og því er ekki hægt að neita að hún hefur glímt við fátæktargrýluna frá fyrstu tíð í landinu.
Frá og með XXVIII bókinni í ritröðinni Þáttum af sérkennilegu fólki gengu sagnfræðingarnir Bragi Þorgrímur Ólafsson og Sólveig Ólafsdóttir (ekki systkini) í ritstjórahópinn.