Viðmiðunarreglur

Í upphafi höfðum ritstjórarnir ákveðnar grunnreglur að viðmiði í sambandi við útgáfu ritraðarinnar og settu þær niður á blað þeim og öðrum sem koma að vinnslu ritraðarinnar til leiðbeininga:

Ætlaðar ritstjórum, höfundum og prófarkalesurum

  1. Um er að ræða útgáfu á frumtextum, þar sem augljós pennaglöp eru leiðrétt athugasemdalaust.
  2. Önnur meginreglan skal vera sú að breyta textanum sem minnst nema í þeim tilfellum þar sem frumtextinn er illskiljanlegur.
  3. Eftirfarandi atriði eru samræmd í öllum útgáfum:
    a) Stór stafur og lítill,
    b) Stór stafur er alltaf settur í upphafi setninga,
    c) Punktur er settur í lok setninga.
  4. Greinaskil eru búin til ef ástæða þykir til.
  5. Önnur greinamerki eru lagfærð í þeim tilfellum þar sem þau eru talin hindra eðlilegan lestur textans.

Rökin fyrir þessum reglum eru fyrst og fremst þau að lesandinn fái tækifæri til að kynnast textanum í sem upprunalegustu formi. Þannig komast ritstjórar hverrar bókar hjá því að þrengja sér upp á textann með því að hrófla við málfari og stafsetningu. Þessi aðferð reyndist áhrifarík vegna þess að tungutak fólks og tjáning var oft á tíðum kjarnyrt og skapandi og var ekki þvinguð af reglum sem síðari tíma fólk studdist við er það setti hugsanir og hugmyndir á blað. Með öðrum orðum lesendur ganga að þeim ritheimi sem höfundur textans tengist og það án tilgerðarlegra reglna nútímamannsins.

Ritstjórar tóku strax þann kostinn að laga textann örlítið til að auðvelda lesendum lesturinn. Þessi ráðstöfun gerir það að verkum að útgáfan er einhvers staðar á milli þess að vera stafrétt heimildútgáfa í anda þeirra sem sérfræðingar Árnastofnunar gefa út með reglulegu millibili og hinar svokölluðu „normaliseruðu“ útgáfur sem þekktar eru frá hendi Finns Sigmundssonar fyrrverandi Landsbókavarðar frá miðri 20. öld.

Reyndar var ágreiningur milli Kára og Sigurðar Gylfa hversu langt ætti að ganga í þessum efnum. Kári hallaðist að þeirri skoðun að nauðsynlegt væri að „normalisera“ textann og búa hann út í hendur lesandans með þeirri stafsetningu sem nú gildir. Hann var einnig þeirrar skoðunar að æskilegt væri að vinna meira úr frumtextanum efni sem ekki gæti beint talist til skemmtilesningar. Þess í stað yrði gerð tilraun til að birta það sem er rismeira og áhugaverðara út frá fagurfræðilegu sjónarmiði.

Sigurður Gylfi hefur á hinn bóginn verið þeirrar skoðunar að með „normaliseringunni“ drægjum ritstjórar úr áhrifamætti textans til muna og blekktum þannig lesendurnar með því að segja að við værum í betri aðstöðu til að koma honum til skila í skjóli menntunar okkar og yfirsýnar en fólkið sjálft sem samdi textann. Þannig gætu ritstjórar vaðið inn í kafla, frásagnir og jafnvel setningar og teygt þær og togað, um leið og þeir veldu á mun meira afgerandi hátt en áður atburði og dæmi sem við teldum að hentuðu útgáfunni. Þetta var iðja sem Sigurður Gylfi gat ekki sætt sig við.

Már Jónsson

Þegar Már Jónsson prófessor í sagnfræði kom inn sem ritstjóri um aldamótin 2000 ásamt Davíð Ólafssyni lektor í menningarfræðum og Kári hvarf til annarra starfa þá má segja að Már hafi tekið við keflinu af Kára. Már hefur nefnilega unnið mikið með heimildir sem hefur þurft að „normalisera“ vegna eðli þeirra og gerðar. Davíð hefur hins vegar verið hallur undir sjónarmið Sigurðar Gylfa að lofa textanum að standa að mestu óbreyttum, þar sem því verður við komið.

Niðurstaðan hefur verið málamiðlun þar sem ritstjórar hafa reynt að halda forminu á textanum, orðmyndunum og stafsetningu að mestu. Þó víkja þeir frá þessari reglu á nokkuð veigamikinn hátt sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.

Davíð Ólafsson