Umgjörðin

Jörundur Guðmundsson
Jörundur Guðmundsson

Frá fyrsta degi hafa Sýnisbækurnar verið þróaðar með ákveðna hugmyndafræði í huga. Í fyrsta lagi hefur hugmyndin verið sú að gefa lesendum kost á að komast í kynni við ótrúlega ríkulegan handritaarf frá síðari öldum sem varðveittur er í söfnum víða um land en ef til vill fyrst og fremst í Handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólasafns. Í öðru lagi að brúa bilið milli fræðanna og áhugamanna um sögu þjóðarinnar. Í þriðja lagi hefur það verið frá upphafi markmið ritstjóra að búa til vettvang fyrir háskólanemendur sem sýnt höfðu mikinn áhuga á heimildunum og úrvinnslu þeirra. Sá draumur hefur sannarlega ræst því margir höfundar ritraðarinnar eru fyrrverandi nemendur okkar og samstarfsmenn. Í fjórða og síðasta lagi vildum við freista þess að gefa vísindamönnum í hug- og félagsvísindum kost á að kynnast innihald einkaskjala sem hafa aðallega verið birt í ritröðinni. Það hefur verið trú okkar að þessar heimildir sem oft eru flóknar og erfiðar í úrvinnslu geti opnað nýja sýn á liðna tíð.

Sverrir Sveinsson

Við það þróunarstarf höfum við ritstjórarnir notið liðveislu einvalahóps fagfólks sem hefur verið boðið og búið að velta fyrir sér hverju smáatriði með okkur. Lykilmaður í þeirri vinnu hefur verið Jörundur Guðmundsson forstöðumaður Háskólaútgáfunnar. Hann hefur stutt við bakið á útgáfunni frá upphafi og leitað allra leiða við að vinna henni brautargengi í góðu samráði við ritstjóra. Sverrir Sveinsson prentari hefur frá fyrstu bók tekið þátt í að vinna að hönnun ritraðarinnar í samræmi við hugmyndafræði verkanna, en hann hefur brotið þær allar um. Sverrri er prentari af gamla skólanum, sem þekkir allar leikreglur sinnar iðngreinar eins og handarbakið á sér. Það hefur verið okkur ákaflega dýrmætt að fá að leita í sjóði hans eftir hugmyndum og útfærslu þeirra.

 

Alda Lóa Leifsdóttir

Sýnisbækurnar hafa verið byggðar þannig upp að við höfum viljað leiða fólki fyrir sjónir hinn mikla hafsjó stafa, orða, setninga, málsgreina, kafla og skjala sem þær eru byggðar á. Þessa tilfinningu höfum við reynt að draga fram með því að hafa blaðsíðurnar mjög þéttar, að nýta leturflötin til hins ítrasta, með það í huga að lesandinn fái það sterklega á tilfinninguna að hann sé raunverulega aðeins að fá nasaþefinn af því mikla magni handrita sem varðveist hefur í handritsöfnum landsins. Hönnun bókakápa, sem hefur verið í höndum Öldu Lóu Leifsdóttur frá upphafi, hefur einmitt tekið mið af þessu sjónarhorni – langt bil á milli stafa er ætlað að undirstrika það sjónarmið ritstjóra að hér séu aðeins starfir á blaði; ótal aðrir stafir á blaðið gætu hæglega tekið stöðu þessara sem birtir eru í hverri bók og útkoman yrði álíka áhugaverð – endalaus flaumur orða með óendanlegum merkingum.

Það hefur verið okkur dýrmætt í vinnsluferlinu að geta notið aðstoðar þeirra Sverris og Öldu Lóu en fleiri hafa lagt okkur lið. Olgeir Skúli Sverrisson hjá fyrirtækinu Hjá OSS hafði umsjón með prentun bókanna fyrst í stað, en hann hefur ákaflega góða yfirsýn yfir alla þætti prentunar og hefur reynst okkur ráðagóður við útgáfuna. Sömu sögu er að segja um Ásgeir Guðmundsson hjá Bókavirkinu, hann batt inn bækur okkar þegar sá háttur var enn hafður á og var hluti af þessum hópi manna sem við höfum reiddum okkur á í árdaga ritraðarinnar. Við unnum síðan með bæði Leturprent og loks Litlaprenti sem hafa reynst okkur vel. Nú eru bækurnar þannig prentaðar að lítið upplag er gefið út fyrst í stað en bætt við upplagið eftir því sem þurfa þykir. Það er hægt vegna nýrrar prenttækni sem hefur skipt útgáfu eins og okkar miklu máli. Saman höfum við öll lagt metnað okkar í að búa til verk sem standast tímans tönn og geti orðið fræðimönnum og almenningi verkfæri til greininga og umfjöllunar um liðna tíð.