Kveðskapur Kristjáns Sigurðssonar póstfulltrúa

Viðauki – frá 1963

 

 

Ódýr

 

Abstraktlistin og asninn

Í Moskvu skeði það óvænta undur, að þar var sett upp sýning á abstrakt málverkum. Krúsév skoðaði sýninguna og kvað upp þann dóm, að þetta hefði einn asni getað málað með hala sínum og varð úr heimsfrétt. Morgunblaðið spurði sex framámenn listarinnar hér um álit þeirra og þeir svöruðu:

Við sáum ekki sýninguna

og hvað getum við þá eiginlega sagt.

Það abstrakta er þungamiðjan

ofar öllu öðru.

Kjarni listarinnar,

uppfundinn í Rússlandi

og uppfóstraður

á kommúnistiskum pela.

En hafi tachismi verið á

sýningunni

þá er engin furða

þótt Krúsév

væri orðljótur.

Tachistar og fúskarar,

sem lifa á styrkjum

útsvína

það allra helgasta.

Svoleiðis getur hver asni

málað með hala sínum.

Þetta sá ekki

Kristján Davlðsson.

Ríkið á ekki að vera með nefið

niðri í listinni,

Það eigum við

að gera.

Og fá næði til þess

frá ríkinu.

Krúsév er lúmskur spaugari,

en brandarinn um asnann

er gamall

og franskur

og kapitalístískur.

Pólitíkusar

eiga að hugsa betur

um heimsvandamálin,

en láta listina

eiga sig.

Þeir botna ekkert í henni

fremur en aðrir óupplýstir

broddborgarar.

Við þurfum að losna við

natúralisma

realisma

hannesarhornisma

hriflujónasarisma.

Þá mun oss vegna vel.

Þess vegna málum við áfram

eftir okkar eigin höfði,

á abstrakta vísu,

í Reykjavík

og Kópavogi.

Og hringurinn snýst

kringum ferninga og keilur

eftir þríhyrndum línum

gegnum klessur og púnkta

í tímanum

og rúminu.

 

 

 

Sölusýning á Týsgötu 1

Þann 24. janúar birti Morgunblaðið þá frétt, að opnuð væri „sölusýning á málverkum eftir þrjátíu menn“ á Týsgötu 1 og voru nokkrir nefndir. Með fréttinni var mynd af Snorra Halldórssyni, Eyjólfi Eyfells og Helga Bergmann, þar sem þeir „ræða saman innan um öll málverkin.“

Í þorrabyrjun er ömurlegt allt

og útsunnan kuldahríð.

Í myndlistarheiminum er þó enn

allt önnur og betri tíð.

Og því ætti allt að ganga greitt

í Gallerí Týsgata Eitt.

 

Þar blasa við oss hin beztu verk

eftir Bergmann og Eyfells minn,

og Kristjana á þarna eitthvað gott

og Ásgeir og þessi og hinn.

Og seljist það allt þá gengur það greitt

í Gallerí Týsgata Eitt.

 

Hann Snorri Halldórs er ennþá að

og Arreboe heitinn er með.

Og jafnvel Engilberts á þarna mynd,

því allt getur hæglega skeð.

Það er engin furða þátt gangi allt greitt

í Gallerí Týsgata Eitt.

 

Eldfjallamálari frá Spáni

Vísir sagði frá því 26. janúar, að spánskur listamaður, E. Calleja, væri hér staddur og einkum vegna þess, að hann er eldfjallamálari. Hann sýndi og seldi heima hjá Hauki Heiðar. „Það er eldur í verkum hans ekki síður en í íslenzku fjöllunum“, sagði blaðið.

 

Frá Spáni er einn kúnstner kominn

að kynna sína list,

og aldrei hefur annar slíkur

ættjörð vora gist.

Á Kanaríeyjum kappinn snjalli

kom við sögu fyrst.

 

Eldfjöll spúa eldi og grjóti

yfir byggðir lands,

en þvílík regin ósköp eru

eftirlætið hans.

Í list hans birtist lýðum þeirra

loga hrunadans.

 

Með Dali hefur dvalið tíðum,

það dagsatt telja má,

og Picasso með ljúfri lundu

leit hans málverk á.

Svoddan kunna ekki allir

oss að greina frá.

 

Í Heiðars bæ við Hvassaleiti

hans var sýning ger.

Þar seldist allt á stuttri stundu,

það stendur prentað hér

í Vísi, svo að allur efi

óðar hverfur mér.

 

Tæknin er, ef satt skal segja,

svakalega stinn.

Úr kalki og öðru hetjan hristir

hrærigrautinn sinn.

Og litina hann bara brennir

beint á pappírinn.

 

Með öllu þessu úfið, marglitt

apalhraunið rís

á myndfletinum, magni þrungið

(meðtak lof og prís).

Og enginn framar eftirhermu

af okkar hraunum kýs.

 

Listin í skammdeginu

Morgunblaðið sneri sér til sex listamanna og grennslaðist eftir listsköpun þeirra í vetrardimmunni. Árangurinn birtist í blaðinu 29. janúar. Allir höfðu þeir einhver viðfangsefni. Svavar fór og sýndi á Grönningen og var tekið forkunnarvel. Scheving málar við ljós, t.d. smiðju í heitum litum og hákarlaveiðar í köldum, sem vænta mátti. Valtýr býr um og sendir listaverk til Helsinki. Briem kennir í gagnfræðaskóla og fer að mála í marz. Gallerí N hefur boðið Þorvaldi að halda sýningu o.s.frv.

 

Það er erfitt að sýsla með línur og liti,

það vill lenda í hálfgerðu vandræðastriti,

þegar dagsljósið dvínar og fer.

En jafnan í Morgunblaðsfréttum er fengur,

það fýsti að vita um hvernig allt gengur,

sem þakkarverð þjónusta er.

 

Hann Svavar er vakandi, fjörugur, frískur,

á fréttirnar var hann samt rækalli nízkur,

sem eldflaug til útlanda skrapp.

Í Höfn sýndi listaverk garpurinn glaður

og gagnrýnin sagði: ja, þvílíkur maður.

Það Dönum var dásamlegt happ.

 

Velkommen, Svavar, til vor over havet,

du ved at vi elsker alt som du har lavet,

það er horngrýti hraustlega gert.

Þú eldsprengjulitum á léreftið þeytir,

það leiðindavetri í sumardag breytir,

meðan allt er hjá okkur um þvert.

 

Hjá Scheving i janúar skuggaýnt er inni,

það skaðar ei neitt, hann kveikir að sinni

og smiðjuna málar sem mest.

Með litsknúði heitu þær logandi glóðir,

en lítið eitt kaldara Hákarlaslóðir.

Hann Laugi er laginn við flest.

 

Og Valtýr við ljósglætu listinni pakkar,

því list okkar víða um álfuna flakkar,

en verkin hann velur þó fyrst.

En síðar hann ætlar þó eitthvað að gera,

sem enginn má vita – Ja, látum það vera –

þegar vorsólin vermir hvern kvist.

 

Út Hörður allskonar húsnæði reiknar,

í heilaga kirkju hann innrétting teiknar

og húsgögn i hárgreiðslunaust.

En þegar að veraldarvafstrinu linnir

og vorið er komið, hann listinni sinnir.

Og svo verður sýning í haust.

 

Briem segist þreyta við gaggólýð glímur,

er gamaldags talinn og myndskreytir rímur

og þarf ekki dagsljós til þess.

En þegar að febrúar framhjá er liðinn

og farið að styttast i vorfuglakliðinn,

þá málar hann markvís og hress.

 

Í Þorvaldi kvef hefur krankleika skapað,

en kúnstin er heilbrigð, þá er engu tapað.

Það gleðja mun Gallerí N.

Hann teiknar svo réttu tökin hann finni,

það tekst, þó að eilítið rökkvað sé inni.

Og svo birtast litirnir senn.

 

Í listanna heimi er listavel unnið,

í listamenn okkar er þó nokkuð spunnið.

Það er enginn efi á því.

Og sólin á loftinu hækkar og hækkar.

Í himneskri vorbirtu myndlistin stækkar.

Hæ, dúddelí, dúddelí, dí.

 

 

Svavar er kominn

Snemma í febrúar birti Morgunblaðið viðtal við Svavar Guðnason, nýkominn frá Höfn, þar sem hann sýndi með Grönningen og árangurinn var ágætur. Menntamálaráðuneytið keypti „Skumringsblomster“ og Kunstforeningen annað málverk o.s.frv. Samning gerði hann um skólaskreytingu. Einnig sá hann merkilega collage-sýningu.

 

Að sunnan er Svavar kominn,

það segir vort Morgunblað.

Ég öllu því trúi og treysti,

sem talaði hann við það.

 

Með Grönningen gott var að sýna,

þar gekk engum betur en mér.

Og Danir kunna að kjósa

sinn kulturminister.

 

Það var hans virðuleg stofnun,

sem valdi mín rökkurblóm.

Og Kunstforeningen keypti,

Hún kann að fella sinn dóm.

 

Út með Værnedamsvegi

ein vísinda stofnun er,

sem Schneeklothsskole heitir,

hans skreyting var falin mér.

 

Þar forsal einn er að finna

með fegurðar lélegt stig,

svo veggirnir auðir æpa

á abstraktsjón eftir mig.

 

Ég sá það á sýningu einni,

sem fyrir augu mín bar,

(að margt getur myndlistin þolað

og mannfólkið, hér og þar).

 

Á myndflötinn danskir drífa

dugnaðar listamenn,

dáindis dúkkulísur

og dauða máfa í senn.

 

Af ýmsu má eitthvað læra

úti í Kaupmannahöfn,

svo fljótlega tækist að fylla

fjöldamörg listasöfn.

 

 

Dr. Selma í Moskva

Rússar buðu til sýningar á verkum eftir Asgrím, Jón Stefánsson og Kjarval og var hún opnuð af Dr. Selmu þann 9. febrúar í Púskjkinsafninu. Klippti hún borða við innganginn og flutti síðan ávarp. Þá töluðu einnig kollegar Dr. Selmu, frú Alexanderna safnstjóri og Manizer, varaforseti listaakademíunnar.

 

Sveif til Sovét

sæt og brosmild,

lagleg og listræn

lítil stúlka.

Fór með fjöld verka

fígúratívra.

Kynnti kúnst vora

kommúnistum.

 

Prakt var mikil

í Púskjkinsafni,

er kona frónsk

klippti þráðinn.

Gengu í sali

gerzkir broddar.

Hlustuðu hugfangnir

á hennar ræðu.

 

 

Svöruðu sovézkir

Selmu kollegar.

Var unun góð

á að hlýða.

Mælti mjúklega

Manizer forseti

og engu síður

Alexanderna.

 

Sá hún á safni

sér til hrifningar,

gömul listaverk

af gulli slegin.

Sá á sýningu

sér til hrellingar,

rauðan, rússneskan

realisma.

 

Eitt vantar sovét

átakanlega,

sem er abstraktlist

okkar tíma,

heillandi, skapandi,

hug vekjandi,

eins og sjá má

í Selmu ríki.

 

 

Fundur í Lídó

Stúdentafélagið hélt fund um listir í Lídó 23. febrúar. Björn Th. flutti framsöguerindi um myndlistina. Gerði hann harða atlögu að Listasafninu og meðferð myndlistarmála í einu og öllu.

 

Við eigum laglegt listasafn,

sem listræn dama stjórnar,

og til að annast tilgang þess

hún tíma sínum fórnar.

En vanþakklát er veröldin

og verkin lítils metur,

þótt margoft puði manneskjan,

svo mikið sem hún getur.

 

Þá lærðir menn í Lídó fund

um listir nýskeð héldu,

var hörmung stór að hlusta er

þeir harða dóma felldu.

Vort listasafn, það líki í gröf

er líkast, svo var talið,

og ekkert prentað um það sést

hvað inni þar er falið.

 

Í álfu vorri ekkert safn

jafn aumt og dautt mun vera.

Þótt listinni sé stefnt í strand

vill stjórnin ekkert gera.

Svo mælti Björn, en mér finnst þó

að megi andsvör finna,

því Selma hefur engan aur

og ótal mörgu að sinna.

 

Mæðutíð Myndlistarfélagsins

Vísir átti tal við Finn Jónsson, formann Myndlistarfélagsins, 19. marz. Kvartaði hann undan yfirgangi klíkunnar, eða með orðun blaðsins: „fámennrar og ófyrirleitinnar klíku listamanna, sem telja sig sjálfkjörna oddvita íslenzkrar myndlistar.“ Á þessu ári er fyrirhuguð norræn sýning í París og „hefur Alþingi ætlað 800000 krónur á fjárlögum þessa árs“ vegna hennar. Klíkan mun áreiðanlega vilja sitja ein að fúlgunni.

 

Enn er þrælslega farið með Finn

og fígúratíva listamenn.

Það er eins og sjálfur andskotinn

abstraktklíkuna styðji enn.

 

Erlendis sýnir okkar þjóð

abstrakt klessur og járnabrot,

en ráðherrar láta ríkissjóð

reikninginn borga eins og skot.

 

Á norræna sýning í Signuborg

að senda Valtý með abstrakt dót,

það skapar þjóðinni skömm og sorg,

á scandale þeim fæst engin bót.

 

 

 

Norræn list í Helsinki

Norræna listabandalagið opnaði sýningu í Helsinki 8. marz. Valtýr og Jóhannes mættu þar. Fréttir af undirtektum komu fyrst í viðtali við Valtý í Morgunblaðinu 21. marz. Hafði hann ftundið tvö jákvæð korn um sjálfan sig í gagnrýni blaðanna, en svolítið neikvætt um Kristján Davíðsson. Annað kom ekki fram.

 

Helsinki er ein herleg borg,

með húsaraðir og kringlótt torg

og rómuð í ræðum og ljóðum.

Þar mættust í kúnstinni frændþjóðir fimm,

með fegurð unp lýstu kvöldin dimm,

á jafnréttis grundvelli góðum.

 

Það er óþarft að spyrja um okkar menn,

þeir eru snjallir og frægir í senn,

en mikið vill gjaran meira.

Og gagnrýnin alltaf glæsileg er

og gríðarleg hrifning ytra og hér.

Það sælt er að sjá og heyra.

 

Ég man þá tíð er þeir reru í Róm,

er ríkið klikkaði og buddan var tóm,

þá unnu þeir afreksverk magnað.

Þá sannaðist bezt, að hver sýning, hvert þing

er sverð vort og skjöldur og landkynning,

sem veitir oss virðing og hagnað.

 

En hvað var að frétta frá Helsinki?

Við hðfum í ofvæni spurt að því,

en fréttamenn þrjózkast og þegja.

Vor athygli beindist að einni grein,

svo útskýringin varð grátleg, en ein:

Það var ekki af sigrum að segja.

 

En svo kom Valtýr og sannaði það,

að sjaldan bregst okkar Morgunblað,

um krítík er kappinn fróður.

I dómunum eitt af öðru bar,

það eitt var sniðugt til frásagnar,

að Valtýr er geysigóður.

 

Listamórallinn í Morgunblaðinu

Morgunblaðið 23. marz. Í minningargrein Valtýs Péturssonar um Valtý Stefánsson ritatjóra er þessi setning: „Við blað sitt tókst honum að skapa listrænan móral, sem var til fyrirmyndar.“

 

Valtýr eldri léði lið

listamóral góðum,

en Valtýr yngri annan sið

iðkar á sömu slóðum.

 

Vísir, Finnur og vidtalið

Vísir 27. marz. Sig. Sigurðsson kvað enga norræna listsýningu fyrirhugaða í París á þessu ári, og engin styrkveiting sjáanleg á fjárlögum. Gunnar Schram var reiður og kvað þá menn, „sem hafa ekki annað betra við tíma sinn að gera en skrifa skammir um íslenzka listamenn í götustrákastíl í dagblöðin, jafnvel þótt í nafni gamalla og góðkunnra listamanna sé ættu að snúa geiri sínum í skynsamlegri áttir.“

 

Aumingjaskapurinn alltaf vex,

enn eru þeir með skrítið pex.

Um list þó skrifað sé ljótt í blað

hún lagast hreint ekki neitt við það.

 

Að birta í Vísi falska frétt,

það fannst honum Gunnari ekki rétt,

en mikil ritstjóra raun er það,

að rífa kjaft við sitt eigið blað.

 

Sýningarfréttin var sorglegt plat,

séð enginn styrk í lögum gat,

en nú þarf að upplýsa næsta sinn

hvort nokkur hefur talað við Finn.

 

Ritstjórarnir og viðtalið

Morgunblaðið 30. marz. Bréf frá Hersteini, sem honum var meinað að birta í Vísi. Gefur Gunnari óþægilega pústra.

 

Þeir, sem íhaldslistum lið

ljá, og við þær semja frið,

en abstrakt klíku ybbast við,

aldrei skulu hljóta grið.

 

Gunnars reiði gráleg var

grimmt þá deildu ritstjórar,

en yfirtökum, eins og bar,

abstraktlistin náði þar.

 

Hersteinn sagði: Moggi minn

má ég skrifa í dálkinn þinn,

en ekki mun ég annað sinn

eiga tal við kúnstner Finn.

 

 

 

Varasamur stíll

Úr viðtalsdeilunni:

Gunnar: „… enn eru þeir menn til hér á landi … að þeir telja flest það, sem ekki er málað í forníslenzkum raunsæisstíl hina fortkastanlegustu afskræningu …“

Finnur: „Hann talar um „forníslenzkan raunsæisstíl“ í málverkum … það fyrirbæri hef ég aldrei heyrt nefnt.“

 

Þó að oft sé áleitið

isma viðsjált moldviðrið,

aldrei föndrar Finnur við

forníslenzka raunsæið.

 

Grínistinn í Morgunblaðinu

Morgunblaðið 4. apríl. Bréf til Valtýs frá S. B. Telur Valtý vera mikinn grínista „og þó mistækur eins og allir húmoristar.“ Tilefnið hörð krítík um sýningu Kára.

 

Á vizkubrunni ekkert op

í er til að gogga,

þegar Valtýr skrítið skop

skrifar um list í Mogga.

 

Lítið sendibréf frá Scheving til Valtýs

Með hliðsjón af smágrein í Morgunblaðinu 9. apríl vegna áreitni S. B. í garð Valtýs.

 

Er sýningar ýmsar séð ég hef

um sannleikann illa fræddur,

ég fékk af þeim listræna kvöl og kvef

og kvaddi þær raunamæddur.

 

En daginn sem Moggi dóminn þinn

í dálkunum sínum flutti,

þá sá ég að misskildi málarinn

var meira en afbragð, sá stutti.

 

Eg skildi þá aftur, að okkar list

er yfirleitt gæðavara.

Þú sannleikann heiðrar síðast og fyrst

og segir hann, það held ég bara.

 

En lýjandi er það, ljúfurinn,

einn lofsöng um alla að pára,

svo hvíldar sér leitaði hugur þinn

í harðskeyttum dóm yfir Kára.

 

Það er ekki fávísa lýðnum létt

hið listræna að meta og vega,

svo margir telja það tæplega rétt,

að taka þig alvarlega.

 

Þú verður alltaf, það veit mín trú

sá vinur, sem aldrei svíkur,

og máli ég ennþá eina kú,

þú að henni góðu víkur.

 

 

„Lundurinn helgi“

Kurt Zier lét að því liggja í grein um sýningu Sigurðar Árnasonar, að ekki væri heiglum hent að sýna í Bogasalnum, þar sem hann væri undir sama þaki og Listasafnið. Þar ætti strangari mælikvarði að gilda en í öðrum sölum.

 

Við sjáum að við Hringhraut eitt hús af grunni rís,

sem hefur mikil þjóðardjásn að geyma,

frá kynslóðum, sem lifðu við sult og eld og ís

og ekki þekktu franska listar heima.

 

Svo breytist allt og viðreisn af viðreisn tekur við

unz vorra daga menning öllu bjargar.

Og ekki hikar myndlistin að leggja henni lið,

en leiðir hennar eru býsna margar.

 

Í húsi vorrar sögu fékk listin líka skjól,

að lífga gleði okkar, sem að stritum.

En löngum henni töfrasöngva Galla haninn gól,

því gott er margt í frönskum listaritum.

 

Svo Guðmunda og Valtýr þar tróna hlið við hlið

og hellingur af snjöllum listamönnum.

Til hressingar við lítum þangað, svona við og við,

það veitir okkur styrk í dagsins önnum.

 

En muna skal að ganga með gætni um helgan stað

hvar geymast listaverk af Selmu valin.

Það væri mikil afturför, ef öllum liðist það,

að útsvína með fúski Bogasalinn.

 

 

Ísraelsk barok

Bat Yosef sýndi í Listamannaskálanum í maí.

Valtýr: 1) „… þessi sýning hefur ekki hrifið mig á neinn hátt.“ 2) „… Þá get ég ekki með góðri samvizku sagt, að þessi sýning sé merkileg eða hafi hrifið mig.“  3) „… varð ég fyrir miklum vonbrigðum að þessu sinni.“

Kurt Zier: „Hugsaðu þér … að loft í barokhöll keisarans í Vínarborg eða fagurlega skreyttar hvelfingar í kirkju … í kaþólskum löndum … Ímyndaðu þér enn fremur, að loft þetta með öllu flúri og töfrandi skreytingum hafi verið tekið niður, bútað í hérumbil 60 reiti 80×100 cm. málað yfir þá með kröftuglegum litblettum, – það er sýning Bat Yosef.“

 

Ein ágæt kona frá Ísrael,

iðkandi fagra list,

að hressa dottandi hugarþel

hefur nú land vort gist.

En Valtýr varð ekki hrifinn.

 

Í tímanum er hún efalaust,

en ekki nægir það,

því byggingin aldrei er ýkja traust

og allt ruglast sitt á hvað.

Svo Valtýr varð ekki hrifinn.

 

Vonbrigði allskonar hér í heim

hrjá okkar listadraum.

Ó, heilagur Lúkas, hjálpa þeim,

sem hringla í ismanna straum,

og Valtý að verða hrifinn.

 

Hann Kurt hefur margar kirkjur í

komið um sína tíð,

og kynnst þar skrauti með kurt og pí

sem var kúnst fyrir baroklýð.

Það hentar ei handíðaskólum.

 

Og gyðingakona kom og sá

kaþólskan helgidóm.

Þar listrænni hugmynd, sem enginn á,

sér aflaði, saklaus og fróm.

Mein Kurt, was kann es bedeuten?

 

Vor list er haglega saman sett,

sýna það rökin sterk.

Hún tekur úr rókókó blett og blett

eða barok, sem nútíma verk.

Valtýr minn vertu nú hrifinn.

 

 

Trúlofun fiskanna og sitthvað annað á sýningu Myndlistafélagsins

Heimildir: Vísir 12 júní 1963, bls. 9; Morgunblaðið 13. júní 1963, bls. 6.

 

Komdu og skoðaðu sýningu sæta

á sérstæðum kúnstverkum skálanum í.

Listina alltaf má örlítið bæta,

ef unnið er stöðugt og markvisst að því.

En fræðimenn segja að fúskið sé enn

í framsókn, það sjá allir heilvita menn.

Tralala lalala …

 

Þar trúlofast fiskar á fertugu dýpi,

í fallegum litum við þangskrautið glæst.

Slíkt hendir jafnvel hin skrítnustu skrípí,

er skreyta sig með því, sem uggum er næst.

Á öllu þeir hafa sinn arfgenga stíl

og ekki skortir þá sexanpíl.

Tralala lalala …

 

Hann Kjarval er magnaður meistari talinn,

en má ekki trufla jafn samstæða heild.

Við sjáum á göngu um góðverka salinn,

hann gat ekki verið í svoleiðis deild.

Því var honum ýtt á hinn aftasta bekk,

þar afreksverk hans í skammakrók hékk.

Tralala lalala …

 

Um Skúlagötuna flugurnar flögra,

þar fæst alltaf vodka og skín stundum sól.

Þar rónarnir löngum rykaðir skjögra,

ef rignir þeir leita í útvarpsins skjól.

Eitt fegursta mótív, sem finnanlegt er,

en framgrunninn vantar, ja, því er nú verr.

Tralala lalala …

 

Á elfunnar bakka ungmeyjar standa,

sem afklætt sig hafa sérhverri spjör.

Það kemur þó ágætum kúnstner í vanda,

að kynna oss þesskonar dásemd og fjör.

Því ofvinnslan varð honum fjötur um fót,

hann fékk enga spennu í túlkun á snót.

Tralala lalala …

 

Svo göngum við út eftir gagnrýni slíka,

því gæðamat okkar er þó nokkuð strangt.

Við fáum ei séð að hin Finnska klíka

fái hér völdin, hún kemst aldrei langt.

Í list hennar eitt þó af öllu er verst,

að ekta fullkomnun hreint ekki sést.

Tralala lalala …

 

 

Hverju reiddist Valtýr?

Ásbjörn Stefánsson skrifaði smágrein í Timann 22. júní gegn „gagnrýni“ Valtýs á Sýningu Myndlistafélagsins. Taldi hann svoleiðis vonzkugrein jafnvel geta skaðað blaðið og flokkinn.

 

Hver er sá Valtýr af vonzku svo óður

að viðreisnin skelfur og riðar til falls?

Um listsköpun er hann á engan hátt fróður,

sá öfugi Krúsév, sem vís er til alls.

Við Myndlistafélagsins meistaraverk

hann magnaðist heift, þau voru svo sterk.

Tralala lalala …

 

Þótt sumt megi tæpast til sýninga nota

er sitthvað þar efalaust fyrirtaks gott,

og flestir af kunnáttu nenslinum pota

með prýði og sýna af listrænu vott.

En valtýrsku reiðinnar upphaf var eitt:

að asnahala þar var ekki beitt.

Tralala lalala …

 

 

Menningarviðleitni

Þegar sagt var frá því, að Valtýr ætti að skreyta Kennaraskólann með mósaík.

 

Einhverntíma ávöxt ber

undirstaðan lærdómsrík,

ef kennaraefnin kynna sér

kúnstneriska mósaík.

 

 

Fréttaþjónustan

(Að gefnu tilefni)

 

Vor list, vor list, vor myndlist

er löngu viða kunn.

Hún fer um lönd og leiðir,

hún laðar, gleður, seiðir,

þótt okkur sýnist sumum,

að sé hún fremur þunn.

 

Eitt lítið lofsorð magnast,

svo ljómi frægðin hrein.

Það verður margfalt meira,

svo megi þjóðin heyra,

að hún í fjarlægð flestum

sé fremri í þeirri grein.

 

En finni einhver ekki

af ekta snilli vott,

þá förlast blöðum fregnir,

það furðu engri gegnir,

við eigum öll að trúa,

að allt sé harla gott.

 

Haustsýningin

Hún stóð í þrjár vikur, en Morgunblaðið birti enga grein um hana.

 

Ágjöf vex á bæði borð,

ber nú knörr að grunni.

Moggi flutti ekki orð

frá abstraktsýningunni.

 

Ósamræmi

Stúdentablaðið. Thor Vilhjálmsson leggur til að tekið verði eins árs framlag, 10 milljónir, frá Hallgrímskirkju og byggð 10 hús „handa 10 snjöllum listamönnum.“ Verði vinnustofurnar það stórar, „að málarar eins og Svavar Guðnason gætu afgreitt pantanir frá útlöndum … þegar um risastórar myndir er að ræða til skreytingar í erlendum menningarstöðum.“

 

Guði kirkju á háum hól

heimurinn reisir glaður,

en Svavar á sér ekkert skjól

abstrakt listamaður.

 

Litirnir hjá Sveini

Frá því var sagt í útvarpinu, að Sveinn Björnsson hefði sýnt í Kaupmannahöfn með dönskum kollegum, og fengið lof gagnrýnenda fyrir ágæta litameðferð.

 

Þar um enginn efast má,

að orð sín danskir meini,

er lof þeir bera líka á

litina hjá Sveini.

 

Fregnin sú var furðugðð,

– frægð er klén í leyni –.

Ljóma slá á land og þjóð

litirnir hjá Sveini.

 

Persóna mannsins

Kurt Zier hafði ýmislegt að athuga við Haustsýninguna, og kvaðst ekki finna manninn að baki nema 4–5 mynda á sýningunni. Þorvaldur spurði hvað hann meinti, en Zier svaraði með ritgerð um „persónu mannsins“, en Þorvaldur sá „hvergi grilla í neina lausn.“ Þorvaldur vitnar í þessi orð Ziers: „en maður fer út (af sýningunni) eins og úr bíó og gleðst á ný yfir raunveruleikanum, yfir götuljósum, blómum í gluggum og kærustupari, sem reikar suður með tjörn.“ Myndlistarverkið, gott eða lélegt, ber alltaf vitni um meistara sinn, að áliti Þorvaldar.

Að haustnóttum sýning var haldin ein,

sem horngrýti abstrakt var talin.

En Zier er nú andvígur svoleiðis grein

og sýnist hún næstum því galin.

Æ, æ og ó.

Ómenning landsins.

Á bak við allt þetta samansull

hann sá hvergi „persónu mannsins.“

 

Hann gekk þaðan út með hryggð í hug

– að haustnóttum kólnar í veðri –.

En náttúran gaf honum gleði og dug,

eftir gremju á sýningu téðri.

Hæ, hæ og hó.

Hamingja landsins.

Í kærustupari um kvöld við tjörn

vér könnumst við „persónu mannsins.“

 

En Þorvaldur elskar þá abströktu list,

sem undir sig leggur heiminn.

Hann áleit að Zier hefði alveg misst

sinn andlega belg út í geiminn.

Hæ, hæ og hó.

Haustsýning landsins.

Þótt kúnstin sé hreint ekkert kærustupar

hún kynnir samt „persónu mannsins.“

 

 

Veðrið

Morgunblaðið 22/1 1964. Svavar sýndi með Grönningen og var mjög stórt málverk eftir hann, „Veðrið“, miððepill hennar og hlaut mikið lof. Einn gagnrýnandi „fór óblíðum orðum um sýninguna“ og taldi hana leiðinlega. Í þessu umhverfi taldi hann að Svavar verki „næstum eins og snillingur“ – og fór þar kúfurinn af lofinu. (Má nú minnast orða eins listamanns fyrir nokkrum árum, að Veðurstofan lýsti veðrum betur en málarar, en þá voru svoleiðis lýsingar talin ein af höfuðsyndum „natúralismans“).

 

Að mála veðrið er mikill vandi,

svo meistarar einir geta það,

því sífelldar lægðir á sjó og landi

sveiflum og regni koma af stað.

Annað veifið er veðrið gott,

en verður snögglega kalt og vott.

 

Natúralisminn er löngu dauður

og líkast til grafinn, sem betur fer.

Í veðratúlkun hann var svo snauður

í verkum sínum, að hörmung er.

En abstraktlist ber um annað vott,

svo allt komst í lag, og það var gott.

 

Við eigum öllum öðrum meiri

ágæta snilldar listamenn,

meðan hjá Grönningen fleiri og fleiri

fúskarar danskir sýna enn.

En nú var Svavar þar nærstaddur

næstum því eins og snillingur.

 

Saman við línur bogabreiðar,

í bezta máta hann tvinna kann.

ljómandi fleti. Götur greiðar

gengur að settu marki hann.

Blandast við orku milda má

margskonar veðraliti sjá.

 

Veðralýsing í voldugu formi

verður dönskum í minni föst.

Hvíslar andvarinn, hvín í stormi

hvítt er löðrið í sævarröst.

Svöl er vorbirtan, signor minn.

Svavar upplýsir mannskapinn.